Á lokafjórðungi síðasta árs námu fjárfestingar í sprotafyrirtækjum heilum 6 illjörðum króna. Þetta kemur fram í frétt Norðurskautsins , fréttamiðils um frumkvöðlastarf á Íslandi.

Þorri fjárins sem fest var fór til CCP, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá hlaut tölvuleikja- og sýndarveruleikaframleiðandinn 30 milljónir bandaríkjadala eða um 4 milljarða íslenskra króna fjárfestingu frá NEA og Novator.

Meðalfjárfestingin, ef fjárfestingu NEA er sleppt úr jöfnunni - sökum þess hvað hún er miklu hærri en hinar fjárfestingarnar - nam einhverjum 2 milljónum bandaríkjadala eða um 253 milljónum króna.

Þá eru stærstu fjárfestingarnar í eftirtöldum fyrirtækjum:

  1. CCP með 30 milljónir dala
  2. Arctic Trucks með 3,62 milljónir dala
  3. ARK Technology með 2,3 milljónir dala
  4. Sólfar með 2,15 milljónir dala
  5. Activity Stream með 2,1 milljón dala

Þá skal þess einnig getið að 80% fjárfestinganna kom frá útlendum aðilum - en enn og aftur skal haft í huga að NEA átti svo gífurlegan hluta fjármagnsins að sú tala er að einhverju leyti hlutfallslega brengluð.