Uppsöfnuðu lausafé Íbúðarlánasjóðs, sem nemur 16 milljörðum króna hefur verið fjárfest í verðtryggðu vaxtaberandi skuldabréfi. Skuldabréfið er með veði í safni fasteignalána Íslandsbanka og er það keypt af ESÍ ehf, sem er dótturfélag Seðlabankans.

Íbúðalánasjóður hefur keypt fyrir alls 83 milljarða sértryggð skuldabréf af ESÍ áður, en þau voru með veði í húsnæðislánum útgefnum af Arion banka hf. Var það gert bæði í vor og síðasta haust.

Ánægður með bættan rekstur

„Þessi fjárfesting hefur jákvæð áhrif á afkomu sjóðsins og styrkir efnahag hans talsvert. Með kaupum á skuldabréfinu frá ESÍ kemur sjóðurinn uppgreiðslum ársins aftur í form vaxtaberandi verðtryggðra eigna. Við erum ánægð með hvernig tekist hefur til við að bæta rekstur Íbúðalánasjóðs að undanförnu og munum vinna áfram að því að styrkja efnahag sjóðsins,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs í fréttatilkynningu um málið.

Í tilkynningunni er jafnframt sagt að kaupin muni auka jöfnuð milli eigna og skuldbindinga Íbúðarlánasjóðs, að þau muni hafa jákvæð áhrif á afkomu sjóðsins, sem og að samningurinn sé gerður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.