Bandaríska tæknifyrirtækið Cisco Systems inc. vill fjárfesta fyrir 4 milljarða Bandaríkjadala á næstu árum. Þetta kemur fram á fréttaveitu Bloomberg, en fyrirtækið ætlar að stækka verksmiðjur sínar og reyna að auka framleiðslu.

Cisco hefur ekki staðfest fréttirnar, en en ef satt reynist mun fjárfestingin gefa forseta Mexíkó byr undir báða vængi. Hann hefur á kjörtímabilinu reynt að ýta undir fjárfestingu í landinu og virðast aðgerðir hans nú sýna fram á árangur.

Skyldi Donald Trump verða næsti forseti Bandaríkjanna, er líklegt að hann muni sýna fyrirtækinu litla virðingu. Í kappræðum gærkvöldsins, lýsti hann yfir áhuga sínum á að hækka skatta á fyrirtæki sem færa störf út fyrir Bandaríkin.

Ekkert bandarískt stórfyrirtæki hefur fjárfest í Mexíkó síðan í apríl, en þá tilkynnti bílaframleiðandinn Ford að fyrirtækið ætlaði sér að fjárfesta fyrir 1,6 milljarða Bandaríkjadala í Mexíkó.

Fjárfestingarnar gætu talist nokkuð umdeildar, þar sem Cisco hefur verið að segja upp starfsfólki í Bandaríkjunum.