Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir lífeyrissjóðina nú þegar fjárfesta í húsnæði fyrir aldraða og enginn fjármagni húsnæði í meiri mæli en sjóðirnir sem heild. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV .

Helgi Vilhjálmsson, kenndur við Góu, hratt af stað átaki í lok síðasta mánaðar þar sem hann leitar lífeyrissjóðs sem vill fjárfesta í húsnæði sem hentar öldruðum. Hvatti hann landsmenn til að styðja við málstaðinn með því að skrá nafn sitt á vefnum okkarsjodir.is .

Gunnar segir hins vegar í samtali við RÚV að sjóðirnir hafi þegar fjárfest í slíku húsnæði og nefnir sem dæmi Mörkina og Hrafnistu í Reykjavík, Boðaþing í Kópavogi og dvalarheimili í Borgarnesi og Stykkishólmi. Sagði hann einnig að sjóðirnir gætu stofnað félag um rekstur á húsnæði fyrir aldraða en að þeir hafi ekki sérþekkingu til að reka slíkt húsnæði. Aðrir séu betur til þess fallnir.