Almennu útboði í hlutabréf Símans lauk núna á miðvikudaginn en rúmlega fimm þúsund fjáfestar óskuðu eftir því að taka þátt í útboðinu. Fyrir það höfðu hins vegar bæði fjárfestahópur undir forystu Bertrand Kahn og Orra Haukssonar auk ótilgreindra viðskiptavina Arion banka fengið að fjárfesta í Símanum á lægra verði.

Samtals greiddi fjárfestahópurinn 1.330 milljónir fyrir fimm prósenta hlut í Símanum á genginu 2,5. Meðalgengi bréfa í almenna útboðinu var 3,33 og hefur þessi fimm prósenta hlutur fjárfestahópsins því, samkvæmt tölum Morgunblaðsins í dag, hækkað um rúmar 440 milljónir á þeim 48 dögum síðan hluturinn var keyptur.

Ótilgreindir vildarvinir Arion banka fengu einnig að kaupa 5% hlut en hann var keyptur á genginu 2,8 á hlut. Þessi hópur keypti því hlut í bankanum sem var 282 milljónum undir markaðsverði almenna útboðsins.

Samtals má ætla að verðmæti þeirra hluta sem þessir tveir hópur keyptu hafi aukist í verði um 722 milljónir á 48 dögum.