Bretar hafa á undanförnum misserum sýnt mikinn áhuga á samstarfi við Íslendinga í orkumálum og horft til þess að kaupa orku frá Íslandi um sæstreng. Bresk-íslenska viðskiptaráðið hélt fund um málið á Hótel Nordica í gærmorgun. Paul Johnson, yfirmaður hjá National Grid, einu helsta raforkufyrirtæki Bretlands, flutti erindi á fundinum ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra, Ásgeiri Jónssyni hagfræðingi og Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar. Áætlaður kostnaður við lagningu sæstrengs til Bretlands er á bilinu 300 til 550 milljarðar króna. Á fundinum var nokkrum spurningum varpað fram. Er raunhæfur möguleiki á samvinnu Breta og Íslendinga í orkumálum? Er þjóðhagslega hagkvæmt að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands? Að hverju þarf að huga áður en ráðist er í lagningu sæstrengs?

Paul Johnson sagði á fundinum að áhugi fjárfesta til lagningar sæstrengs frá Íslandi til Bretlands væri fyrir hendi. Sá áhugi hafi ekki síst komið í ljós þegar ráðstefna um strenginn hafi verið haldin í London fyrir skömmu. Hann sagði að fyrir fjárfesta væri grundvallaratriði að vita hver afstaða íslenskra stjórnvalda væri. Það væri forsenda þess að fjárfestar gætu metið sína áhættu og ávinninginn af lagningu sæstrengsins.

Johnson sagði að aðrir kostir væru líka í stöðunni því National Grid væri að skoða möguleika á streng til Noregs, Danmörku, Frakklands og Írlands. Næsta verkefni fyrirtækisins væri lagning strengs til Belgíu.

Bresk Íslenska fundur um áliðnað
Bresk Íslenska fundur um áliðnað
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Bresk Íslenska fundur um áliðnað
Bresk Íslenska fundur um áliðnað
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)