Innlendir aðilar eru fremur bjartsýnir á verðbólguhorfur næstu þriggja ára, ef verðbólguálag á skuldabréfamarkaði er brotið niður. Þó ber að hafa til hljóðsjónar við túlkun verðbólguálagsins að ýmsar stærðir geta bjagað heildarmyndina og því hæpið að taka það bókstaflega, einkum á styttri bréfum.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Segir að einkum tveir þættir valdi bjögun. Annarsvegar eru það lítil viðskipti með stysta flokk íbúðabréfa (HFF14) og hinsvegar óseðjandi áhugi erlendra aðila á stuttum óverðtryggðum bréfum sem skekkja myndina.

Verðbólga samkvæmt spá Arion og samkvæmt markaði graf
Verðbólga samkvæmt spá Arion og samkvæmt markaði graf
© None (None)

„Ef við gefum okkur að verðbólguspá Greiningardeildar gangi eftir þá er óhætt að fullyrða að HFF14 bréfin séu „ódýr“ samanborið við önnur sambærileg óverðtryggð bréf, þá sérstaklega RIKB 12. Hitt er svo annað mál hvort menn geti átt stór viðskipti á núverandi kröfu HFF14 (þar sem lítið flot er með bréfin og flokkurinn fremur lítill í sniðum – heildarstærð flokksins var í árslok 2010 32.ma.kr.),“ segir í Markaðspunktum.

Erlendir aðilar eiga lítið af verðtryggðum bréfum

Hlutfall verðtryggðra skuldabréfa í eignarsöfnum erlendra aðila hérlendis hefur verið lágt hingað til. Haustið 2010 var hlutfallið áætlum um 5%. Verðtryggð krónueign þeirra nam því um 20 milljörðum króna af 400 milljarða heildareignum.

Mikið hefur verið rætt um að krónueign erlendra aðila sé meðal þeirra þátta sem komi í veg fyrir afnám hafta. Rökin eru þau að þeir séu flokkaðir sem óþolinmóðir fjárfestar og vilji því selja krónurnar sínar sem fyrst þrátt fyrir að gengi krónunnar væri þeim óhagstætt. Krafan á HFF14 virðist ekki endurspegla þennan raunveruleika því erlendir aðilar (erlendar fjármálastofnanir) mega og geta losað um stöður sínar hér á landi einungis á örfáum árum með því að kaupa í HFF14 (þ.e. þeir mega taka með sér út samningsbundnar afborganir og vexti). Þetta bætist við þá staðreynd að flokkurinn virðist undirverðlagður miðað við stutta óverðtryggða rófið og verðbólguhorfur.“

Greiningardeildin veltir upp mögulegum ástæðum þess að erlendir aðilar hafi ekki keypt í skuldabréfaflokki HFF14 í meiri mæli og þar með keyrt niður kröfuna. Ástæður að mati greiningardeildarinnar gætu meðal annars verið þær að erlendir aðilar haldi enn í þá von að höftunum verði aflétt fyrr, flokkurinn sé svo lítill að aðeins er hægt að koma litlum hluta krónueignar úr landi eða að erlendir aðilar hafi ekki enn áttað sig á þessum valkosti.