Hlutabréf hækkuðu um 5% og tyrkneska líran um 3% og hefur hún ekki verið hærri gagnvart Bandaríkjadal í tvö ár, í kjölfar stórsigurs Réttlætis- og þróunarflokksins (AKP) í þingkosningum síðastliðinn sunnudag. Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hefur heitið því að gerðar verði málamiðlanir á hinum pólitíska vettvangi í því augnamiði að forðast átök við hin veraldlegu öfl í landinu og tyrknesk hernaðaryfirvöld, en jafnframt verður áfram unnið að því að ráðast í frekari umbætur í efnahags- og atvinnumálum.

Stjórnmálaskýrendur gera ráð fyrir því að hin nýja ríkisstjórn Erdogans forsætisráðherra verði mynduð næstkomandi ágúst eftir að þing landsins hefur komið saman. AKP-flokkurinn, sem á rætur sínar að rekja til íslamskrar hugmyndafræði, jók fylgi sitt í kosningunum um 12% frá því í síðustu þingkosningum sem fram fóru árið 2002 og hlaut samtals um 47% greiddra atkvæða. Þrátt fyrir þá miklu fylgisaukningu fækkaði fulltrúum flokksins á þingi úr 352 í 340, sökum þess að fleiri stjórnmálaflokkum tókst að rjúfa 10% múrinn sem er forsenda fyrir því að fá fulltrúa kjörinn á þing.

Pólitískur óstöðugleiki helsti ásteytingarsteinninn
Sérfræðingar um tyrkneska markaðinn segja að sigur Erdogan hafi verið fjárfestum mjög að skapi, sem hafa undanfarin fimm ár - frá því að Erdogan tók við embætti forsætisráðherra - lagt mikið undir að haldið verði áfram á þeirri vegferð sem AKP-flokkurinn hefur markað í valdatíð sinni. Ein hættan er hins vegar sú að hin pólitíska spenna sem ríkti í Tyrklandi síðastliðið vor komi aftur upp á yfirborðið þegar tyrkneska þingið mun þurfa að velja nýjan forseta. Af þeim sökum telja margir stjórnmálaskýrendur að enda þótt fjárfestar hafi fagnað kosningasigri Erdogan hefðu þeir engu að síður kosið að sigur hans hefði verið minni, þar sem slík útkoma hefði væntanlega minnkað líkurnar á hugsanlegum átökum milli AKP-flokksins og hinna veraldlegu afla í stjórnmálalífi Tyrklands. Takist Erdogan aftur á móti það vandasama verk að útnefna mann í embætti forseta landsins sem breið sátt verður um á meðal helstu valdastétta í Tyrklandi, yrði það til þess að fjarlægja eina helstu hindrun þess að margir erlendir fjárfestar hafi verið reiðubúnir til að fjárfesta þar í landi - en það hefur verið sá óstöðugleiki sem löngum hefur ríkt í stjórnmálalífi Tyrklands.

Flestir sérfræðingar eru á einu máli um að eftir sigur AKP-flokksins séu efnahagshorfur í Tyrklands góðar, ef gengið er út frá því sem vísu að ríkisstjórn Erdogans muni halda efnahagsumbótum sínum áfram.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.