Bandarískir fjárfestar eru farnir að flýja hlutabréfamarkaðinn þar í landi og leita þeir nú frekar til Evrópu og Japans. Bandarísk hlutabréf hafa hækkað þokkalega í verði undanfarin sex ár en nú hafa menn áhyggjur af því að það styttist í leiðréttingu.

„Sú staðreynd að menn eru að losa stöður sínar í bandarískum hlutabréfum virðist gefa það til kynna að menn óttist hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Alina Lamy, greinandi hjá Morningstar.

Samkvæmt Morningstar hafa fjárfestar dregið úr stöðu sinni í Bandaríkjunum sem nemur 64 milljörðum dollara og sett 158 milljarða dollara í erlenda sjóði. Meðal ástæðna þess er að bandarísk hlutabréf hafa ekki hækkað mikið í verði það sem af er ári á meðan evrópskar og japanskar hlutabréfavísitölur hafa náð tveggja stafa vexti.