Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær verður óheimilt að greiða arð á grundvelli reiknaðs hagnaðar, nái frumvarp um ársreikninga fram að ganga án breytinga.

Þetta hefði þýðingu fyrir félögin í Kauphöllinni, enda er nokkur hluti hagnaðar þeirra oft í formi virðisbreytinga. Það á sérstaklega við um fasteignafélögin þrjú; Eik, Reiti og Regin.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað mikið undanfarna daga og hefur hækkunin haldið áfram það sem af er degi. Verð fasteignafélaganna hefur lítið breyst frá því í upphafi vikunnar.

Verð Eikar hefur lækkað um 0,8%, verð Reita hefur hækkað um 0,1% og verð Regins hefur svo gott sem staðið í stað.

Því virðist sem fjárfestar telji annað hvort að frumvarpið hafi takmarkaða þýðingu fyrir virði félaganna, eða að ólíklegt sé að frumvarpið nái fram að ganga óbreytt.