Iceland Tourism Investment Conference and Exhibition, eða ITICE, er ráðstefna og sýning sem verður haldin í Hörpu 29. febrúar til 1. mars 2016.

Þetta er í fyrsta skipti sem ráðstefna af þessu tagi er haldin. Markmið ráðstefnunnar er að stefna saman hagsmunaaðilum sem tengjast á einhvern hátt fjárfestingum og rekstri íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Boðið verður upp á ýmiss konar fræðslu, en hátt í 60 manns munu flytja erindi á ráðstefnunni.

Ræðumenn munu fjalla um viðfangsefni á borð við lúxusupplifanir í íslenskri ferðaþjónustu, samband iðnaðarins við hlutabréfamarkaðinn og aðgang að fjármagni í ferðaþjónustugeiranum.

Fyrirlestrar jafnt sem pallborðsumræður

Milli fyrirlestra og atburða verða ótal tækifæri fyrir athafnafólk til að kynnast og mynda sambönd. Þá verður einnig boðið upp á hressingar, hvort sem er í formi veitinga og drykkja eða í formi örstutts uppistands sem Ari Eldjárn sér um að flytja fyrir ráðstefnufara.

Auk þess sem fjölmargir sérfræðingar munu flytja fyrirlestra og halda ræður verða pallborðsumræður. Meðal þeirra sem mæta til pallborðsumræðna eru Björgólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Icelandair Group, og Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa lónsins.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um Fundi og ráðstefnur . Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.