Áfram verður óheimilt fyrir einkaaðila að fjárfesta í hraðbrautum Þýskalands í nýrri áætlun um innviðauppbyggingu í landinu.

Stjórnir þýsku landanna, sem hafa töluverða sjálfstjórn, stóðu gegn tillögum fjármálaráðherra landsins, Wolfgang Schaeuble, um að leifa tryggingafélögum að kaupa sig inn í ríkisfyrirtækið sem hefur umsjón með vegakerfi alríkisins þar í landi.

Meðal þess sem stofnunin sér um eru 13 þúsund kílómetra langar hraðbrautirnar, sem þekktar eru meðal margra vegna þess að þar eru engar hraðatakmarkanir.

Fjárfestarnir hefðu fengið tækifæri til að kaupa sig inn í fjárfestingartækifæri sem hefðu getað nummið allt að 300 milljörðum evra, eða sem nemur 35.574 milljörðum íslenskra króna ef áætlunin hefði gengið eftir. Hefði þessi fjárfestingartækifæri opnast á næstu þrjátíu árum en áætlunin gekk einungis út á að selja hluta af fyrirtækinu.

Sýnir þetta andstöðu almennings við aðkomu einkaaðila að innviðauppbyggingu í landinu, en 74% íbúa landsins höfnuðu sölu á vegum í skoðanakönnun sem gerð var í nóvember.

Schauble sem er ráðherra Kristilegra demókrata tapaði baráttunni um málið gegn leiðtogum 16 landa Þýska ríkisins og efnahagsráðherra landsins, Sigmar Gabriel, formanni sósíaldemókrata. Þess í stað mun alríkið flytja um 9,5 milljarða evra til landanna frá og með 2020 sem liður í áætlun um aukna skiptingu tekna.

Samkvæmt skýrslu frá 2012 þarf samgöngukerfi landsins töluvert viðhald og fjárfestingar á næstu árum og áratugum, eða sem nemur þessum 300 milljörðum á til ársins 2045.

Samt sem áður munu veggjöld fyrir vörubíla og fólksbíla verða tekin upp, en breyta þarf stjórnarskrá til þess að svo geti orðið. Jafnframt er búist við að tryggt verði að ekki verði hægt að einkavæða vegakerfið.