Hlutabréf í Símanum voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland síðastliðinn fimmtudag. Eftir almennt útboð á hlutum í félaginu í síðustu viku varð niðurstaðan sú að Arion banki seldi 21% hlut sinn í Símanum á meðalgenginu 3,33 krónur á hlut. Markaðsvirði alls hlutafjár í Símanum er um 32 milljarðar miðað við þá niðurstöðu. Á fyrsta viðskiptadegi varð lokaverð viðskipta 3,49 krónur á hlut og nam veltan rúmum 662 milljónum króna.

Fjárfestingar eru einn stærsti óvissuþátturinn fyrir fjárfesta þegar litið er til rekstrar fjarskiptafélaga að mati þeirra greiningaraðila sem Viðskiptablaðið ræddi við. Miklar tækniframfarir hafa gert það að verkum að stöðugt þarf að breyta til í því hvernig félögin fjárfesta í hinum ýmsu innviðum og því ófyrirsjáanlegt hvernig fjárfestingarþörf þeirra er til lengri tíma litið. Gott dæmi um slíkt er dvínandi fjárfesting félaganna í fastlínukerfi og vaxandi fjárfesting í 3G og 4G dreifikerfi.

Fjárfestingar Vodafone námu 1.378 milljónum á síðustu 12 mánuðum en hjá Símanum námu þær um 4,7 milljörðum „Það kemur töluverður fjárfestingakúfur hjá Símanum á þessu ári og því næsta,“ segir Ragnar Benediktsson hjá IFS Greiningu. „Það sem útskýrir þennan mikla mun er að Síminn hefur töluvert umfangsmeiri innviði en önnur fjarskiptafélög en þau nýta jafnframt innviði Símans í sínum rekstri.“ Spurður að því hvernig fjárfestar munu koma til með að skipta sér á milli félaganna á markaðnum segir Sveinn Þórarinsson hjá hagfræðideild Landsbankans að það muni örugglega verða töluverð skoðanaskipti á milli þeirra. „Þetta verður líklega svipað og varð með fasteignafélögin. Ég á erfitt með að átta mig á því hvernig þau verða nákvæmlega en það sást að Vodafone tók kipp um leið og útboðsgengið var tilkynnt. Eins og staðan er í dag sjá fjárfestar ekki risastóran mun á félögunum. Núna erum við komin með tvö félög þar sem dýnamíkin er mikil og því mjög gott að Síminn sé loksins kominn á markað,“ segir Sveinn.

VB Sjónvarp ræddi við Orra að skráningarathöfninni lokinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .