*

sunnudagur, 24. júní 2018
Innlent 9. september 2017 13:10

Fjárfestingarbankastarfsemi einungis 3%

Vilhelm Már Þorsteinsson segir aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi ekki skref í átt að hagræðingu í bankageiranum.

Höskuldur Marselíusarson
Eva Björk Ægisdóttir

Kljúfa þyrfti nýtt sameinað svið fyrirtækja og fjárfesta sem Vilhelm Már Þorsteinsson stýrir hjá Íslandsbanka ef hugmyndir um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi yrðu að veruleika. Þó að fjárfestingarbankastarfsemi sé einungis um 3% af efnahagsreikningi bankans þá styrkir það hann að hafa fleiri stoðir, líkt og íslenskt efnahagslíf í heildina að sögn Vilhelms.

Vilhelm Már Þorsteinsson hóf fyrst störf hjá Íslandsbanka árið 1999, svo hann hefur farið í gegnum miklar sviptingar í íslenskum bankageira á sínum starfsferli. Í dag starfar hann sem framkvæmdastjóri nýs sameinaðs sviðs fyrirtækja og fjárfesta hjá bankanum.

Fluttu úr 14 þúsund í tæpa 9 þúsund fermetra

„Tilgangurinn með þessum skipulagsbreytingum í vor var að einfalda bankann og setja saman í eitt svið alla þjónustu fyrir stærri fyrirtæki, fjárfesta og stofnanir landsins,“ segir Vilhelm í spjalli við blaðamann Viðskiptablaðsins í nýjum höfuðstöðvum bankans í Norðurturninum við Smáralind.

„Með því að setja saman fyrirtækjasviðið, það er útlánin, og markaðsviðskiptin, sem felur í sér þjónustu við fjárfesta, erum við að freista þess að bjóða þessum markhóp einfaldari og skýrari þjónustu. Við sjáum strax jákvæðan slagkraft með þessari breytingu. Áður voru þessir aðilar kannski að fá þjónustu frá minnsta kosti þremur og allt upp í fjórar viðskiptaeiningar, sem heyrðu undir jafn marga framkvæmdastjóra.

Samhliða höfum við verið að innleiða verkefnamiðað vinnuumhverfi. Það þýðir að starfsfólk velur sér starfsstöð eftir verkefnum og er því meira á hreyfingu. Þessu fylgir líka mikið hagræði þar sem við gátum flutt 650 starfsmenn úr 14.000 fermetrum í 8.600 fermetra og erum þá öll á sama stað.“

Nýtt svið myndi klofna

Spurður út í hugmyndir um breytingar á fjármálakerfinu á Íslandi, meðal annars vinnu starfshóps á vegum fjármálaráðuneytisins um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarstarfsemi, þá bendir Vilhelm á að starfsemi síns sviðs myndi klofna ef ítrustu hugmyndirnar næðu fram að ganga.

„Hluti af því sem við gerum er svokölluð fjárfestingarbankastarfsemi, en annar hluti af því er einfaldlega viðskiptabankastarfsemi gagnvart stærri aðilum. Mörg íslensk fyrirtæki eru mjög stór og þurfa fjölbreytta þjónustu. Allt frá útlánum til ávöxtunar á sínum innlánum auk greiðslumiðlunar, ríkari þarfar í gegnum gjaldeyrismarkaðinn sem og nýtingar á ráðgjöf við kaup og sölu eigna og fyrirtækja,“ segir Vilhelm.

„Það er augljós ávinningur af því að hafa þetta saman í einu búðarborði. Það er líka talað mikið um að það þurfi að hagræða í bankakerfinu og aðskilnaður er ekki skref í átt að hagræðingu. Það myndi fjölga bankastofnunum með tilheyrandi óhagræði er ég viss um. Ekki eru allir heldur sammála um hvað telst til fjárfestingarbankaþjónustu, því það virðast nánast jafnmismunandi skoðanir á því og fjöldi þeirra einstaklinga sem eru að tjá sig um málin.“

Sjálfsagt að ræða þak

Vilhelm segir þetta ekki vera það stóran hluta starfseminnar, jafnvel þótt notuð sé víð skilgreining á því hugtaki. „Þegar við fórum að skoða þetta sjálf, þá eru kannski 3% af okkar efnahagsreikningi sem koma til af starfsemi sem kalla mætti fjárfestingarbankastarfsemi,“ segir Vilhelm sem telur að betra væri að setja einhvers konar skilyrði.

„Fjármálaeftirlitið hefur talað um að setja takmörk á hversu stórt hlutfall þessi starfsemi megi vera og okkur finnst sjálfsagt að ræða það. Sumir vilja líka meina að vegna þess að alhliðabönkum fylgi öflugra regluverk og öflugari áhættustýring sé meira öryggi í þeim, enda sjáum við að það voru ekki endilega fjárfestingarbankarnir erlendis sem stóðu verst í fjármálakreppunni. Viðskiptabankarnir og stóru útlánabankarnir komu mjög illa út úr henni.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.