Japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma hefur fjárfest í Alvotech fyrir um 6.2 milljarða króna (50 milljónir Bandaríkjadala) en um er að ræða 4.2% eignarhlut í fyrirtækinu. Alvotech og Fuji Pharma tilkynntu nýlega um samstarf þar sem það fyrrnefnda þróar og framleiðir lífæknilyf fyrir Japansmarkað, sem er þriðja stærsta markaðssvæði heims. Innkoma Fuji Pharma í hluthafahóp Alvotech mun styðja enn frekar við samstarf fyrirtækjanna á næstu árum og markaðssetningu líftæknilyfja um allan heim.

Alvotech gerði nýverið 22 milljarða króna samstarfsamning við kínverska lyfjafyrirtækið Changchun High & New Technology Industries um þróun, framleiðslu og markaðssetningu líftæknilyfja í Kína. Fyrirtækin hyggjast hefjast handa við byggingu nýrrar lyfjaverksmiðju í Changchun í Kína strax á næsta ári.

Róbert Wessman, stofnandi Alvotech, segir ánægjulegt að fá nýjan fjárfesti í öflugan hóp hluthafa fyrirtækisins. „Það eru aðeins fimm ár síðan við tókum skóflustungu að nýju hátæknisetri í Vatnsmýrinni. Á skömmum tíma hefur fyrirtækið byggt upp verðmætt lyfjasafn líftæknilyfja, ráðið til sín um 250 vísindamenn, reist eina bestu lyfjaverkmiðju fyrir líftæknilyf í heiminum og gert samstarfssamninga við stór lyfjafyrirtæki í Kína og Japan um sölu líftæknilyfja.

Fjárfesting Fuji Pharma nú styður við okkar framtíðarplön, en er ekki síður til marks um þá trú sem erlendir fjárfestar hafa á fyrirtækinu. Framundan eru spennandi tímar hjá Alvotech. Klínískar rannsóknir Alvotech eru að hefjast og fyrirtækið er vel fjármagnað til frekari vaxtar og bakland fyrirtækisins er traust.“

Hirofumi Imai, stjórnarformaður Fuji Pharma, segir í tilkynningu til Kauphallar í Tókýó að hann sé áhugasamur um að koma inn sem nýr fjárfestir í Alvotech, sem hafi vaxið hratt á undanförnum árum. Hann segist einnig hafa mikla trú á þróunarstarfi fyrirtækisins og framleiðslugetu og bíði þess með eftirvæntingu að taka sæti í stjórn Alvotech.