Nýfjárfestingar erlendra aðila í ríkisskuldabréf námu 8,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi ársins, en á öðrum ársfjórðungi nam innflæðið 7 milljörðum króna. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um jókst innflæði fjármagns að nýju í apríl síðastliðnum en það hafði stöðvast þegar Seðlabankinn setti á bindiskyldu á 40% af erlendu fjármagni sem kæmi til fjárfestinga í skuldabréfum á 0% vöxtum.

Seðlabankinn segir í fjármálastöðugleikaskýrslu sinni sem kom út í síðustu viku að þessi aukning kunni að benda til þess að um langtímafjárfestingu sé að ræða.

Hefur á árinu öllu um 26 milljarðar króna komið inn í landið sem fjárfest hafa verið í bindiskyldum bréfum, það er í skuldabréfum. Um 40% af þeirri upphæð hafa því verið bundin til eins árs á fjárstreymisreikningunum sem ekki bera neina vexti eins og áður segir, að því er Fréttablaðið greinir frá.

Hins vegar eru fjárfestingar í hlutabréfum ekki bindiskyld og hefur því erlend nýfjárfesting að mestu farið í skráð hlutabréf. Nam innflæðið í þau 8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi, sem er þó minna en var á öðrum ársfjórðungi þegar innflæðið nam 10,3 milljörðum króna.