Líftæknifyrirtækið Algalíf Iceland ehf., sem þróar og framleiðir fæðubótarefni unnin úr míkróþörungum, tapaði 123,6 milljónum króna á síðasta ári borið saman við tæplega 179 milljóna króna tap árið 2015.

Félagið skrifaði undir fjárfestingasamning árið 2014 vegna örþörungaverksmiðju á Ásbrú á Reykjanesi og hófst framleiðsla sama ár. Síðan þá hefur verksmiðjan stækkað við sig og hélt sú vinna áfram á síðasta ári.

Tekjur námu 173,6 milljónum í fyrra en voru 95,8 milljónir árið áður. Rekstrargjöld lækkuðu úr tæplega 261 milljón í 234,5 milljónir, einkum vegna lækkunar framleiðslukostnaðar. EBITDA var neikvætt um 60,9 milljónir á síðasta ári en var neikvætt um 165,1 milljón árið áður.

Eignir félagsins námu 1,8 milljörðum í árslok. Eigið fé var neikvætt um 293,6 milljónir.

Handbært fé frá rekstri nam 106,5 milljónum en var neikvætt um tæplega 181 milljón árið áður. Fjárfestingar námu 593,4 milljónum. Handbært fé hækkaði um 5,6 milljónir á árinu.

Algalíf er í eigu norska fyrirtækisins Algavita AS.