Tveir leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Venesúela hafa verið fjarlægðir af heimilum sínum eftir að þeir hvöttu til áframhaldandi mótmæla gegn síauknum einræðistilburðum Maduro forseta. Sáust bílar merktir öryggislögreglu ríkisins fyrir utan heimili þeirra, en talið er að hún sé undir miklum áhrifum frá kúbverskum bandamönnum stjórnvalda í höfuðborg Venesúela, Caracas.

Þeir Leopoldo López og Antonio Ledezma, sem báðir hafa þurft að sæta stofufangelsi, vegna þátttöku í fyrri mótmælum hvöttu til þess að mótmælendur héldu áfram þrátt fyrir að forsetanum hafi tekist að kjósa til stjórnlagaþings sem kosið var til á sunnudag.

Segja þátttökuna litla

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segja stjórnarandstæðingar þátttökuna í kosningunni hafa verið mjög litla þó stjórnvöld segi hátt í helming íbúa hafa kosið til þingsins.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Evrópusambandinu, Bretlandi hafa öll gagnrýnt atkvæðagreiðsluna sem sögð er vera til þess gerð að afmá síðustu leifar lýðræðis í landinu. Einnig hafa stjórnvöld í Kólumbíu, Costa Rica, Mexíkó, Panama, Paraguay og Perú gagnrýnt hana, en það er sagt fágætt að ríki rómönsku ameríku nái samstöðu um slík mál.

Hefur vald til að setja þingið af

Nýja stjórnlagaþingið mun hafa, auk þess hlutverks að endurskoða stjórnarskrána, vald til að setja þing landsins af, þar sem stjórnarandstæðingar eru í fyrsta sinn í meirihluta í mörg ár, samþykkja ný lög og fresta öllum kosningum í landinu til frambúðar.

Í Financial Times er fjallað um þann möguleika sem Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður íhuga, líklega í samstarfi við önnur ríki, að stöðva öll olíukaup frá landinu. Aðrir mögulegar refsiaðgerðir sem nefndar eru til sögunnar er til að mynda að takmarka aðgang ríkisolíufélagsins að fjárfestingum og lánamörkuðum erlendis.

Enn er ekki orðið ljóst hvort þingið fái að starfa áfram, en óljós skilaboð hafa borist um það, og má vera að refsiaðgerðirnar fari að einhverju leiti eftir því hve harkalega verði gengið fram í því ásamt frekari handtökum stjórnarandstæðinga.

Ekki lengur tímamörk á embættissetu forseta

Kjósa á að nýju um forseta landsins á næsta ári en samkvæmt núverandi stjórnarskrá, sem fyrirrennari hans og velgjörðarmaður, Hugo Chavés lét semja eru ekki lengur tímamörk á hve lengi forsetinn getur setið. Fyrir breytingar Chaves gat hver forseti aðeins setið í eitt 5 ára kjörtímabil en gat síðan ekki boðið sig fram á ný næstu 10 árin.

Nú er kjörtímabilið sex ár, en hins vegar er hægt að boða til atkvæðagreiðslu um endurkjör forsetans þegar helmingur kjörtímabilsins er liðinn, en þrátt fyrir að öll skilyrði slíkrar atkvæðagreiðslu hafa verið uppfyllt hefur Maduro tekist að hindra að atkvæðagreiðslan fari fram.