Guðlaugur Þór Þórðarsson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir nýtt fyrirkomulag fjárlaga ekki hindra að ný ríkisstjórn geti hækkað skatta og aukið útgjöld, en hins vegar séu fleiri hindranir fyrir því að hægt sé að setja allt á annan endann efnahagslega því sýna þarf fram á að aðgerðirnar auki ekki stöðugleika.

Vill hann að þing verði kallað saman til að skipa fjárlaganefnd og koma fjárlagavinnunni í það umsagnarferli sem gert er ráð fyrir í nýja fyrirkomulaginu ef ekki tekst fljótlega að mynda nýja ríkisstjórn.

Hins vegar hafi ekki náðst sátt um útgjaldareglu sem fæli í sér aðhald á útgjöldum ríkisins, enda vilji íslenskir vinstrimenn ekki hana ekki.

Þingið þarf ekki að fara í hvert smáatriði

Nýja fyrirkomulagið, sem unnið er eftir í fyrsta sinn nú með tilkomu ríkisfjármálaáætlunarinnar til fimm ára, tryggir að þingið þurfi ekki að fara ofan í hvert smáatriði í fjárlagagerðinni eins og áður, heldur eigi það að leggja stóru línurnar.

„Breytingin er sú að ef ætlunin er að breyta pottunum á milli málaflokka, þá þarf að breyta ríkisfjármálaáætluninni. Hugsunin er sú að þeir sem starfa í ríkiskerfinu geti gert áætlun til langs tíma þegar þeir sjái hvernig þetta liggi til fimm ára og menn munu væntanlega tæplega breyta þessum grunni á þessum fáu vikum fram að áramótum,“ segir Guðlaugur Þór.

„En það breytir því ekki að í svona vinnu mun alltaf eitthvað koma upp. Við erum að renna út á tíma með að fá almennilegar umsagnir, sama á við um fjárlagaráðið sem sett var á laggirnar það mun hafa ótrúlega lítinn tíma. Það á að koma með faglegt álit til þingsins um hvort fjárlögin séu á réttri leið til að halda hér stöðugleika.“

Endalaus fjáraukalög ömurlegt fyrirkomulag sem ekki sé lengur

Segir hann líklegt að fjármálaráðið muni koma með svipaðar ábendingar og Seðlabankinn notaði sem eina af röksemdunum fyrir að lækka ekki vexti, það er að búið er að bæta verulega í fjárútlátum til að mynda til almannatryggingakerfisins.

„Fjárlagaráðið gæti sagt að verið sé að ógna stöðugleikanum vegna þess að stjórnvöld ætli að bæta miklu við í einhverja tiltekna málaflokka, en þessa vinnu þarf að fara í og við erum að renna út á tíma með það,“ segir Guðlaugur Þór.

„Ef stjórnarmyndunarviðræðurnar eru ekki að fara að ganga saman, þá er mitt mat að þingið þurfi að koma saman og skipa fjárlaganefnd og setja af stað umsagnarferlið til að reyna að klára þessa vinnu sómasamlega. Nýja fyrirkomulagið gerir ekki ráð fyrir að við getum verið með endalaus fjáraukalög eftir einhverri hentisemi, enda er það ömurlegt fyrirkomulag.“

Hindrar ekki hærri skatta og aukin útgjöld en má ekki ógna stöðugleika

Guðlaugur Þór segir sátt hafa verið í þinginu um nýja fyrirkomulagið, en það hindri ekki að hér geti komið ríkisstjórn sem vilji hækka skatta og auka útgjöld.

„Það er ekkert sem stoppar það, en þú verður þá að koma með áætlun til þess að þetta auki ekki verðbólgu. Fjármálaráð getur ekki komið í veg fyrir hækkun á sköttum en mun gera athugasemdir ef fjárlögin ógni efnahagslegum stöðugleika,“ segir Guðlaugur Þór, en hann segir ekki hafa verið pólitísk samstaða um að setja sérstaka útgjaldareglu á ríkið.

„Meirihluti fjárlaganefndar vildi setja hana inn, en útgjaldaregla væri aðhald á útgjöld ríkisins. Íslenskir vinstrimenn hafa fram til þessa ekki viljað setja hana inn. En í þessu nýja umhverfi opinberra fjármála þyrfti ný ríkisstjórn samt að hafa meira fyrir því til að geta sett allt á annan endann fjárhagslega, því það eru miklu fleiri stopparar í kerfinu heldur en voru áður.“