Ríkisstjórnin hyggst auka tekjur ríkissjóðs um 9 milljarða króna með skattahækkunum og öðrum breytingum á skattkerfinu. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem kynnt var í dag.

Fyrir utan margrædda hækkun á virðisaukaskatti á gistiþjónustu stendur til að breyta fjársýsluskatti þannig að hann reiknist af launum starfsmanna fjármála- og tryggingafyrirtækja, þá munu vörugjöld á ökutæki í eigu bílaleiga hækkuð og almennt tryggingagjald verður hækkað.

Fyrir utan allt framangreint ætlar ríkisstjórnin sér að ná fram um 800 milljónum króna í tekjur vegna breytinga á vörugjöldum á matvæli sem að sögn Oddnýjar G. Harðardóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, mun taka mið af því sem hún kallar manneldismarkmiðum.

Þá áætlar ríkisstjórnin að auka tekjur ríkisins um milljarð króna með hækkunum á tóbaksgjaldi. Þannig stendur til að hækka tóbaksgjald um 20% á næsta ári, eða 15% á næsta ári umfram almennt verðlag. Þetta er í fimmta sinn á fimm árums sem tóbaksgjaldið er hækkað. Fyrir utan framangreinda hækkun á tóbaksgjaldi verða gjöld á neftóbak tvöfölduð.

Á fundi með blaðamönnum í morgun lagði Oddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, sérstaka áherslu á þennan lið. Hún sagði að þrátt fyrir fyrri hækkanir væru engin merki þess að neysla hefði minnkað á neftóbaki, þvert á móti hefði hún að öllum líkindum aukist þar sem ungir menn væru að nota neftóbak til að setja í vörina.

„Nú ætlum við þó að gefa í,“ sagði Oddný þegar hún kynnti tvöfalda hækkun á gjöldum á neftóbaki og sagðist í kjölfarið vonast til þess neyslan myndi dragast saman í kjölfarið. Í meira gamni en alvöru, vonandi, las hún fjölmiðlamönnum á staðnum pistilinn og sagðist vona að þar væri enginn viðstaddur sem notaði neftóbak, enda væri það óhollt.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)