Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs innleystu fjárfestar 6,9 milljarða Bandaríkjadala í bandaríska vogunarsjóðnum Och-Ziff Capital Management. Sjóður Och-Ziff (Sculptor Investments s.a.r.l.) keypti 6,6 prósenta hlut í Arion banka í mars síðastliðinn og er Och-Ziff einn stærsti hluthafi Kaupþings. Samkvæmt nýju ársfjórðungsuppgjöri Och-Ziff hafa innlausnir aldrei verið meiri.

Á fyrsta ársfjórðungi námu hreinar innlausnir 4,8 milljörðum Bandaríkjadala og á milli 1. apríl og 1. maí námu innlausnir 2,1 milljarði dollara. Á sama tíma lækkuðu eignir í stýringu (e. assets under management, AUM ) úr 37,9 milljörðum dollara í árslok 2016 í 32 milljarða dollara í byrjun maí. Um er að ræða 5,9 milljarða dollara samdrátt og 24% lækkun milli ára. Eignir í stýringu hafa lækkað stöðugt að nafnvirði frá árinu 2013.

Vogunarsjóðurinn hefur átt í miklum örðugleikum undanfarna mánuði. Eftir að Och-Ziff játaði sök í máli tengdu mútum í Afríku fyrir ári síðan hafa fjármagn og framkvæmdastjórar flúið sjóðinn. Lánshæfi vogunarsjóðsins var síðan fært niður í BB-flokk með neikvæðum horfum úr BB+ flokk. Í greiningu Standard & Poor's kom fram að rekstur félagsins hafi versnað að undanförnu, vegna minnkandi eigna í stýringu og þóknanatekna. Þá hefur gengi hlutabréfa í Och-Ziff lækkað um rúmlega 27% undanfarna fjóra mánuði. Frá því í júní árið 2015 hefur u.þ.b. 81,6% af markaðsvirði Och-Ziff þurrkast út.

Och-Ziff Capital Management Group er eitt af stærstu fyrirtækjum heims á sviði sérhæfðrar eignastýringar. Aðalstöðvar Och-Ziff eru í New York en fyrirtækið er einnig með skrifstofur í London, Hong Kong, Mumbai, Beijing, Shanghai og Houston. Meðal fjárfesta Och-Ziff eru lífeyrissjóðir, sjóðasjóðir, stofnanir og styrktarsjóðir, fyrirtæki og aðrar stofnanir, einkabankar og fjársterkir einstaklingar.