Fjármagnshöft verða afnumin á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði. Er þetta meðal þess sem kynnt var á fundi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra í Ráðherrabústaðnum í dag.

Á fundinum hefur komið fram að öll fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði verði afnumin með nýjum reglum Seðlabanka Íslands um Gjaldeyrismál.

Fjármagnsflæði að og frá landinu verði nú gefið frjálst og að einstaklingar fyrirtæki og lífeyrissjóðir geti fjárfest erlendis án takmarkana. Afnámið felist í því að Seðlabankinn nýtir heimild í lögum um gjaldeyrismál til að veita undanþágur frá þeim takmörkunum á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum sem nú gilda. Það geri hann með útgáfu á nýjum reglum um gjaldeyrismál.

Í fréttatilkynningu frá stjórnvöldum segir m.a.„Samhliða afnámi hafta á innlenda aðila hefur stærstur hluti vanda sem stafað hefur af svokallaðri snjóhengju aflandskróna verið leystur með samkomulagi Seðlabanka Íslands við eigendur krónanna.

Samkomulagið snýst um að Seðlabankinn kaupir aflandskrónueignir fyrir erlendan gjaldeyri. Viðmiðunargengi í viðskiptunum er 137,5 krónur fyrir evruna, sem um 20% yfir skráðu gengi evru síðastliðinn föstudag. Kaup Seðlabankans hafa í för með sér bókhaldslegan hagnaði sem kemur á móti kostnaði vegna uppbyggingar gjaldeyrisvaraforða,“ segir í kynningu sem dreift var á fundinum.

Þær aflandskrónur sem ekki verða seldar Seðlabankanum verða áfram háðar takmörkunum þangað til lögin sem gilda um þær hafa verið endurskoðuð.