Á vef Ríkisendurskoðunar er að finna útdrætti úr ársreikningum Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna. Viðskiptablaðið tók saman upplýsingar ársreikninganna, en um er að ræða tölur frá árinu 2015.

Tekjur

Samkvæmt samantekt Ríkisendurskoðunar, var Sjálfstæðisflokkurinn tekjuhæsti flokkur landsins árið 2015. Tekjur flokksins námu tæplega 230 milljónum króna. Næst tekjuhæsti flokkurinn var Framsóknarflokkurinn en tekjur hans námu alls 126 milljónum króna árið 2015. Samfylkingin var í þriðja sæti, með tekjur upp á tæplega 95,5 milljónir króna.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fengu hæstu ríkisframlögin, þar sem flokkarnir sátu í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn var einnig með umtalsverðar rekstrartekjur, en flokkurinn leigir hluta Valhallar út. Sjálfstæðisflokkurinn naut einnig mest stuðnings frá atvinnulífinu. Vinstri grænir fengu ekki krónu frá fyrirtækjum.

Gjöld

Sjálfstæðisflokkurinn er með umfangsmesta rekstur allra íslenskra stjórnmálaflokka, á meðan Píratar virðast vera hagkvæmasti flokkurinn.

Afkoma

Tap var á rekstri Sjálfstæðisflokksins árið 2015. Samfylkingin hagnaðist aftur á móti um rúmlega 21,4 milljónir og Vinstri grænir högnuðust um tæplega 23 milljónir.

Eignir og skuldir

Sjálfstæðisflokkurinn á mest, en skuldar einnig í hlutfalli við það. Skuldir flokksins má að öllum líkindum rekja til fjármögnunar á byggingu flokksins. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin skulda næst mest. Píratar skulda aftur á móti ekkert, flokkurinn er ungur og á ekki sitt eigið húsnæði.

Ársreikningana má finna hér .