*

fimmtudagur, 13. desember 2018
Innlent 19. mars 2018 14:48

Fjármál heimilanna í gjaldþrot

Félag Ingólfs H. Ingólfssonar, Fjármál heimilanna sem rak síðuna spara.is, er komið í gjaldþrotameðferð.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Félagið Fjármál heimilanna, sem hefur frá árinu 2003 haldið námskeið um fjármálafræðslu og peningalegt aðhald, auk þess að halda úti heimasíðunni spara.is, er farið í gjaldþrotameðferð. Félagið hafði jafnframt boðið upp á forritið eppli og appelsínur til að aðstoða einstaklinga að halda utan um fjármál heimilisins.

Árið 2010 voru allar eignir félagsins seldar Sparifélaginu að því er Ingólfur H. Ingólfsson annar helsti eigandi félagsins sagði í samtali við Viðskiptablaðið. Ingólfur er sjálfur helmingseigandi að því félagi, en greiðslan var innt af hendi með hlutafé í Sparifélaginu.

Ingólfur segist nú ætla að fá fjárfesta í lið með sér til að kaupa þessa eign til baka frá hinu gjaldþrota félagi en söluhagnaðurinn var skráður á 12 milljónir króna á sínum tíma. Þar sem engar tekjur fylgdu bréfunum gat félagið ekki innt af hendur skattgreiðslur af söluhagnaðinum og því fór sem fór.

„Skuldirnar voru skildar eftir í félaginu,“ segir Ingólfur en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í frétt frá árinu 2012 hafði félagið Fjármál heimilanna fengið leiðréttingu á gengistryggðum lánum á sínum tíma en þá hefði höfuðstóll skuldanna verið 26,2 milljónir að því er Ingólfur sagði þá frá.

Ingólfur segir nú að áætlanir Sparifélagsins um að taka yfir rekstur þriggja sparisjóða sem runnu inn í Landsbankann árið 2015 hefðu ekki gengið eftir, en félagið hafði stefnt að því að rétta við rekstur þeirra og byggja upp bankastarfsemi.