Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára var samþykkt um klukkan tvö í nótt með 32 atkvæðum gegn 31. Píratar höfðu áður lagt fram að tillögu um að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar, en sú tillaga var felld með 32 atkvæðum gegn 31. Einnig voru breytingatillögur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna felldar.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að með áætluninni væri verið að lækka ríkisskuldirnar, búa í haginn fyrir framtíðina, bæta öll málefnasvið og sagði að það ætti ekki að vera ágreiningur á þinginu um það að við séum að lifa uppbyggingarskeið. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði hins vegar að það væri ekkert vit í því að samþykkja fjármálaáætlunina þar sem hún haldi ekki vatni fyrir samfélagið okkar og haldi ekki einu sinni innbyrðis rökum.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fram á Alþingi 31. mars síðastliðinn og sýnir forgangsröð ríkisstjórnarinnar. Yfirlýst markmið með fjármálaáætluninni er að vega á móti þenslu í hagkerfinu, stuðla sátt á vinnumarkaði, taka á gengisstyrkingu og efla opinbera þjónustu og styrkja innviði. Stærstu útgjaldaliðirnir eru heilbrigðis- og velferðarmál. Til að mynda er stefnt að því að byggja nýjan Landspítala á tímabilinu.

Gagnrýnisraddir úr báðum áttum

Fjölmargir hafa tjáð sig um fjármálaáætlun hins opinbera. Til að mynda hefur komið fram að Samtök atvinnulífsins telja að  fjármálaáætlun hins opinbera ekki í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að vega á móti þenslu í hagkerfinu og að útgjaldaaukning feli í sér auknar álögur á almenning í reynd. Sömuleiðis hefur komið fram að Viðskiptaráð Íslands telur að ekki liggi fyrir hvernig skuli forgangsraða í ríkisútgjöldum ef bjartsýnar forsendur áætlunarinnar bregðast.

Fjármálaráð var jafnframt fengið til þess að leggja mat á fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2018 til 2022 og benti á að aðhaldsstig ríkissjóðs muni slakna stærstan hluta tímabilsins. „Þannig virðist sem stjórnvöld séu að stíga lausar á bensíngjöfina þegar þau ættu að vera að bremsa og að sú slökun á aðhaldi ríkisfjármála sem hefur átt sér stað á undanförnum árum muni halda áfram á tímabili áætlunarinnar,“ kom fram í álitsgerð fjármálaráðs .

Miðstjórn ASÍ sendi sömuleiðis frá sér fréttatilkynningu þar sem hún gagnrýndi harðlega nýja fjármálaáætlun og sagði hana „ alvarlega aðför að velferðarkerfinu .“ Píratar sendu nýverið frá sér tilkynningu þar sem kom fram að áætlun ríkisstjórnarinnar væri í raun bara ágiskun og að fjármunum væri skipt niður á málefnasvið ráðuneyta að því er virðist handahófskennt.