Samkvæmt forstjóra Fjármálaeftirlitsins eru dæmi um það í dag að íslensk fjármálafyrirtæki þjónusti aflandsfélög viðskiptavina sinna. Þetta kemur fram í frétt á ruv.is .

Efnahags- og viðskiptanefnd kallaði fulltrúa Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í morgun á fund, sem er opinn fjölmiðlum, til að ræða aðgerðir gegn skattaskjólum. Í síðustu viku komu ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri á fund nefndarinnar. Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri benti í upphafi á að aðkoma bankans að málefnum aflandsfélaga væri ekki jafnmikil og skattayfirvalda.

Í fréttinni segir að Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, bendi á að hlutverk FME sé að stuðla að heilbrigði fjármálamarkaðarins. það verði gert með því að veita aðhald til löghlýðni. Gagnsæi sé mjög mikilvægt til að tryggja heilbrigði, bæði að löggjöfin og framkvæmd hennar gefi ekki möguleika til annars en eðlilegs og heilbrigðs gagnsæis.

Í fréttinni kemur jafnframt fram að FME hafi óskað eftir gögnum frá íslenskum fjármálafyrirtækjum um núverandi tengsl þeirra við aflandsfélög. Svör hafi borist frá flestum en ekki sé búið að greina þau í þaula. Í fljótu bragði virðist þó ekkert af þessum fyrirtækjum hafa haft milligöngu um stofnun aflandsfélaga eftir hrun. Eitthvað sé aftur á móti um að þau þjónusti aflandsfélög í gegnum viðskiptavini sína sem eiga slík félög.