Í dag hefst alþjóðleg fjármálalæsisvika eða Global Money Week. Tilgangurinn er að vekja börn og ungmenni til vitundar um fjármál en það er Stofnun um fjarmálalæsi sem fer fyrir hópi stofnana og fyrirtækja sem standa fyrir dagskránni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stofnun um fjármálalæsi en þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin á Íslandi. Alls taka yfir 100 lönd þátt.

„Upphafið verður markað með því að Máni Mar Steinbjörnsson, fjármálaunglingurinn úr sjónvarpsþáttunum „Ferð til fjár“ hringir bjöllunni í Kauphöllinni að morgni dags. Alþjóðlega fjármálalæsisvikan 2015 er hátíð sem haldin er í yfir eitt hundrað löndum í annarri viku marsmánaðar. Markmið vikunnar er að vekja ungt fólk til umhugsunar um fjármál sín og gefur þeim tól og tæki til að móta eigin framtíð. Ungt fólk um allan heim tekur þátt í ýmsum verkefnum er snúa að fræðslu og umræðu um fjármál á breiðum grunni. Fjármálalæsisvikan tengir börn, ungmenni, foreldra, stofnanir, fyrirtæki og samfélagið allt. Fjölbreytt dagskrá verður hér á landi, allt frá kennslu í grunnskólum, til örráðstefnu og opins húss í Seðlabankanum. Alþjóðlega fjármálalæsisvikan er haldin að frumkvæði samtakanna Child and Youth Finance International. Þetta er í fjórða sinn sem hún er haldin á alþjóðavísu, en í annað sinn sem Ísland tekur þátt,“ segir í tilkynningunni.

  • Á miðvikudaginn verður haldin ráðstefna í hádeginu á miðvikudaginn í Háskólanum í Reykjavík. Dagskrá ráðstefnunnar er eftirfarandi:
  • „Fjármálalæsi og háskólamenntun“ - Ari Kristinsson, rektor Háskólans í Reykjavík
  • „Er Lottó góð fjárfesting?“ - Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins
  • „Fjármálavit“ - Kristín Lúðvíksdóttir verkefnisstjóri hjá Samtökum fjármálafyrirtækja
  • „Greiðsluvandi – Hvað geri ég?“- Svanborg Sigmarsdóttir upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara
  • „Ungir fjárfestar – tilgangur og starfsemi félagsins“ - Ungir fjárfestar: Alexander Jensen Hjálmarsson
  • „Virði peninga, verðlag og verðtrygging“ - Lúðvík Elíasson sérfæðingur hjá Seðlabanka Íslands
  • „Fjárfesting í fræðslu“- Baldur Thorlacius, forstöðumaður eftirlitssviðs Kauphallarinnar
  • „Tæknin og fjármálin?“- Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga
  • „Fjármálalæsi“ - Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra