Danska ríkisstjórnin áformar ennþá að skrá Dong Energy á markað í síðasta lagi á fyrstu mánuðum næsta árs, þrátt fyrir mikla lækkun olíuverðs. Fjármálaráðherra Danmerkur, Claus Hjort Frederiksen hefur sagt að hann vilji skrá félagið á markað sem fyrst. Fyrirtækið er 76% í eigu dönsku ríkisstjórnarinnar og hét áður Dansk Naturgas og Dansk Oile og Naturgas.

Hlutafjárútboðið mun líklega vera það stærsta í sögu Danmerkur en fyrirtækið er metið á um 50 til 70 milljarða danskra króna, eða á milli 950 milljarða íslenskra króna til 1.330 milljarða króna. Viðskiptablaðið fjallaði um málið í byrjun nóvember þegar greint frá áformum um að skrá félagið á markað.

Upphaflega átti fyrirtækið að vera skráð á markað á árinu 2008 en vegna verulegra þrenginga á fjármálamörkuðum þá var hlutafjárútboðinu frestað. Á þeim tíma var heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu 146 dalir á tunnu en það er nú um 31 dalur á tunnu.

Fjármálaráðuneyti Danmerkur hefur gefið það út að undirbúningur fari áfram fram samkvæmt áætlun. Jacob Pedersen, yfirmaður greiningardeildar hjá Sydbank hefur sagt að þrátt fyrir að slæm staða markaða gæti haft áhrif þá sé hlutafjárútboðið orðið pólítík spurning. Það séu því allar líkur á því að það þurfi mikið að gerast á mörkuðum til að hlutafjárútboðinu verði frestað, en þetta sé augljóslega ekki góður tími til að fara í hlutafjárútboð.