Fjármálastjóri tölvuleikjarisans Activision Blizzard, Spencer Neumann, sem sagt hefur verið upp af ótilgreindum ástæðum, verður næsti fjármálastjóri streymisveitunnar Netflix, ef marka má heimildir Reuters fréttaveitunnar .

Activision Blizzard greindi frá því á gamlársdag að Neumann yrði sendur í launað leyfi, og í framhaldinu yrði honum sagt upp störfum, af „ástæðum ótengdum fjármálalegri upplýsingagjöf félagsins“. Dennis Durkin, framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu sem áður gegndi stöðu fjármálastjóra, mun taka við henni á ný.

Neumann tók við sem fjármálastjóri hjá leikjarisanum fyrir 18 mánuðum síðan, og var enn bundinn ráðningasamningi við fyrirtækið, en í frétt Wall Street Journal um málið er Netflix sagt vera þekkt fyrir að „stela“ samningsbundnum framkvæmdastjórum annarra fyrirtækja.

Netflix hafði verið að leita að arftaka fyrir David Wells, fjármálastjóra streymisveitunnar til 14 ára, sem tilkynnti í ágúst síðastliðnum að hann hygðist stíga til hliðar.