Hlutabréf í eigenda Snapchat lækkuðu um meira en 8% í gær eftir að fjármálastjóri félagsins, Tim Stone, sem gekk til liðs við félagið frá Amazon í maí síðastliðnum, hefði ákveðið að hætta.

Stone sem hafði verið aðstoðarfjármálastjóri Amazon, var ráðinn með tilboði upp á 500 þúsund dala tekjur ásamt kaupréttarsamningi sem hljóðaði upp á 20 milljónir dala, á fjórum árum.

Er uppsögnin sú nýjasta í langri röð uppsagna helstu frammámanna hjá félaginu síðan félagið fór á markað fyrir um tveimur árum síðan. Þeirra á meðal má nefna yfirmann viðskiptaþróunar, Imran Khan sem hætti í september og aðstoðarforstjórinn Nick Bell tveimur mánuðum síðar.

Fyrr í vikunni kom svo í ljós að Jason Halbert, aðstoðarmannauðsstjóri væri að segja upp eftir þrjú og hálft ár hjá fyrirtækinu, að því er FT greinir frá.

Kærur og minnkandi notkun

Vandræðin koma samhliða því að Evan Spiegel, forstjóri og stofnandi félagsins, berst við minnkandi notkun á samfélagsmiðlinum sem og rannsókn bandarískra stjórnvalda á mögulegum blekkingum gagnvart fjárfestum í aðdraganda hlutafjárútboðs.

Það sem af er degi hefur þó gengi bréfa Snap hækkað um 3,65%, og fæst nú hvert bréf félagsins á 6,54 dali, en þau voru boðin á 17 dali í fyrrnefndu hlutabréfaútboði. Jafnframt hefur félagið tilkynnt um að niðurstöður fjórða ársfjórðungs séu eilítið nær efri mörkum væntinga EBITA tekjur, sem liggja á bilinu 335 til 380 milljón dala.