Íbúðir í eigu fjármálastofnana voru fjórðungi færri í lok síðasta árs en árið á undan, að því er fram kemur í Hagvísum Seðlabankans. Þeim fækkaði um 800 á árinu og voru 2.246 í desember síðastliðnum.

Það eru álíka margar íbúðir og eru í Akranesbæ eða Fjarðabyggð. Rúmlega helmingur íbúðanna var í útleigu, eða 1.272 íbúðir. 860 íbúðir voru fullbúnar en ekki í útleigu og fækkaði slíkum íbúðum um 38% í fyrra.

Rétt tæplega 100 íbúðir voru í byggingu. Þeim hafði fækkað um 83% á fjórum árum.