Fjármögnun á kísilveri Thorsil í Helguvík er á lokametrunum, að því er heimildir Viðskiptablaðsins herma. DV greindi frá því fyrr í dag að viðræður séu í gangi um að auka hlutafé Thorsil um 13 milljarða króna með samningum við lífeyrissjóði, bandarískan fjárfesti og innlenda fag- og einkafjárfesta.

Eiga líeyrissjóðirnir að tryggja tæpa fjóra milljarða króna og þá ætlar fjárfestingafyrirtækið Equity Asset Group, sem Bandaríkjamaðurinn Louis Stern fer fyrir, að leggja um 40 milljónir dala, jafnvirði 4,5 milljarða, til verkefnisins. Eigendur Thorsil og aðrir íslenskir fjárfestar hafa skuldbundið sig fyrir því hlutafé sem upp á vantar og búið er að ganga frá lánasamningum við Arion banka, Íslandsbanka og einn erlendan banka. Kísilmálmverksmiðja Thorsil, sem byggja á í Helguvík fyrir alls 31 milljarð króna, verði þá fullfjármögnuð.

Talsmaður Thorsil segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé búið að ganga frá fjármögnuninni, en viðræður gangi vel og búast megi við því að málinu verði lokið um mánaðamótin næstu. Við það tækifæri verði send út tilkynning. Verðbréfafyrirtækið Arctica Finance hefur verið ráðgjafi Thorsil við fjármögnun á verkefninu.