Útlán til ferðaþjónustunnar nema rúmlega 14% af heildarútlánum viðskiptabankanna til fyrirtækja og hefur hlutfallið aukist nokkuð milli ára. Hlutfallið þykir þó ennþá nokkuð lágt, sérstaklega með tilliti til þess gríðarlega vaxtar sem orðið hefur í greininni undanfarin misseri. Bendir það að mati sérfræðinga til þess að félög utan hins hefðbundna bankakerfis og bankar utan landsteinanna hafi að miklu leyti fjármagnað fjárfestingu í ferðaþjónustu. Engar tölur virðast hins vegar vera til sem gefa nákvæmlega til kynna hversu hátt það hlutfall raunverulega er.

27% ársvöxtur á árinu 2016

Í Fjármálastöðugleika Seðlabankans fyrir árið 2017 kemur fram að útlán til ferðaþjónustu nema rúmlega 14% af heildarútlánum við­ skiptabankanna til fyrirtækja og mældist ársvöxtur þeirra 27% á árinu 2016.

Til samanburðar má sjá að í ítarlegri úttekt sem greiningardeild Arion banki gaf út í september í fyrra að útlán til ferðaþjónustunnar voru þá aðeins 10% af heildarútlánum. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum var hlutfall lána til aðila í ferðaþjónustunni í árslok 2016 5% af lánasafni Arion banka en hafði verið 4% ári áður, þ.e. í árslok 2015. Bankinn hefur hins vegar ekki birt upplýsingar um þróunina það sem af er árinu 2017. Samkvæmt Seðlabankanum er ferðaþjónustan nú þriðji stærsti atvinnuvegaflokkurinn í útlánasafni bankanna á eftir fasteignafélögum og sjávarútvegi. Útlán til greinarinnar nema um 8,5% af heildarútlánum viðskiptabankanna til viðskiptavina.

Bendir til fjármögnunar utan bankakerfisins

Í greiningu Arion banka sem var birt á síðasta ári kemur fram að það komi höfundum í raun á óvart að vöxturinn sé ekki meiri sökum þess hversu hratt ferðaþjónustan hafði þá verið að vaxa og fjárfestingar að vaxa mikið. Velti greiningardeildin því upp þeirri spurningu hvort gögn Seðlabanks gæfu þá ekki nægilega skýra mynd af stöðu mála. Eins var velt upp þeirri spurningu hvort félög utan hins hefðbundna bankakerfis og bankar utan landsteinanna hafi að miklu leyti fjármagnað fjárfestingu í ferðaþjónustu.

Þrátt fyrir að sérstaka yfirsýni virðist skorta um slíkar fjárfestingar slær Seðlabankinn því hins vegar föstu í skrifum sínum að hin mikla uppbygging ferðaþjónustunnar sé að einhverju leyti fjármögnuð utan bankakerfisins, af einstaka fagfjárfestasjóðum eða með stofnun samlagshlutafélaga um einstaka fjárfestingar. Lífeyrissjóðirnir eru í mörgum tilfellum kjölfestufjárfestar þar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.