*

miðvikudagur, 22. ágúst 2018
Innlent 23. september 2017 15:14

Fjárnám gert í pókerfélagi

Hluthafar og kröfuhafar Jivaro eru áhyggjufullir en yfir 300 milljónir af hlutafé hafa verið lagðar í félagið.

Ingvar Haraldsson
epa

Gert var árangurslaust fjárnám að hluta í bankareikningi og búnaði tæknifyrirtækisins Jivaro ehf. í síðustu viku samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Í kjölfarið er hægt að óska eftir að félagið verði tekið til gjaldþrotameðferðar. Kröfurnar í málinu sneru að lánum sem lánveitendur áttu að geta fengið endurgreitt eða breytt í hlutafé að lánstímanum liðnum. Óskað var eftir að fá lánin, sem komu frá þremur aðilum og námu samtals ríflega 2 milljónum króna, endurgreidd. Það fékkst ekki af hálfu félagsins og því var farið fram á fjárnám í félaginu. Félagið mótmælti lögmæti krafnanna. Enn er tekist á um hluta málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem reynt er að fullnusta kröfunum.

Samþykktu heimild til nauðasamninga

Jivaro var stofnað árið 2011 og býður notendum upp á samtímagreiningu á pókerleikjum á netinu. Kröfuhafar og hluthafar félagsins hafa margir hverjir áhyggjur af því fé sem þeir hafa lagt félaginu til. Hluthafar í félaginu voru 128 í árslok 2016 og nam innborgað hlutafé 317 milljónum króna. Félagið keypti eigin bréf fyrir 10 milljónir króna árið 2016. Á hluthafafundi í byrjun sumars lýstu hluthafar í fé- laginu þungum áhyggjum af stöðu mála. Á fundinum var samþykkt tillaga frá stjórn félagsins um að heimilt væri að leita eftir nauðasamningum. Beiðni um nauðasamning hafði hins vegar ekki enn verið lögð fram í gær samkvæmt upplýsingum frá Héraðsdómi Reykjavíkur

Ójafnað tap frá stofnun félagsins í árin 2013 til 2016 nam 120 milljónum króna og var ójafnað tap í árslok 2016 tæplega 180 milljónir króna. Ríflega helmingur tapsins átti sér stað árið 2015 þegar tapið nam 65,2 milljónum króna. Sölutekjur félagsins ríflega tífölduðust hins vegar milli áranna 2015 og 2016, úr 4,7 milljónum króna í 49,5 milljónir króna. Tap ársins 2016 nam engu síður 21,4 milljónum króna samkvæmt ársreikningi félagsins. Bókfærðar eignir félagsins felast nær alfarið í hugbúnaði sem metinn var á 372,2 milljónir króna af 384 milljóna króna heildareignum. Handbært fé félagsins nam þá 6,4 milljónum króna en viðskiptakröfur, aðrar skammtímakröfur og fyrirframgreiddur kostnaður 5,3 milljónum króna.

Stjórnarformaðurinn tjáir sig ekki

Stærsti hluthafi Jivaro samkvæmt ársreikningi félagsins er Hornsteinn rekstrarfélag ehf. með 31,62% eignarhlut. Stærsti hluthafi Hornsteins er Baldur Hans Úlfarsson, sem jafnframt er stjórnarformaður Jivaro, með 75% hlut. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Baldur að málið verði rekið fyrir dómstólum og hann hyggist ekki tjá sig um málið. Meðal annarra hluthafa í Jivaro eru Þórarinn Kristjánsson sem átti 9,47% hlut og Alterego Studios ehf. átti 4,7% hlut um síðustu áramót.

Í ársreikningi Hornsteins er enginn eignarhlutur í öðrum félögum bókfærður en viðskiptakröfur eru sagðar nema 104,7 milljónum króna og viðskiptaskuldir 99 milljónum króna. Þá nemi eigið fé Hornsteins 6,4 milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Jivaro fjárnám Pókerfélag