„Við erum í dag eina sænska morgunblaðið sem hefur aukið sölu," segir Peter Fellman ritstjóri Dagens Industri, eins þekktasta viðskiptablaðs Norðurlandanna, í viðtali við Viðskiptablaðið. Ritstjórinn var spurður hvernig hann teldi horfurnar í rekstri dagblaða.

„Fyrir um ári tókst okkur að snúa við 10 ára langri þróun. Áskrifendum og lausasölukaupendum fjölgar og hefur gert það undanfarið ár. Ég tel það því fjarri sanni að prentmiðlar muni deyja eða hverfa af markaðnum. Vægi þeirra gæti minnkað en ég er sannfærður um að það verði alltaf eftirspurn eftir góðum morgunblöðum," segir Fellman.