Fjögur fyrirtæki eru skráð á First Northmarkaðinn á Íslandi. Þetta eru Sláturfélag Suðurlands, Hampiðjan, Century Aluminum og HB Grandi. Stefnt er að skráningu síðastnefnda fyrirtækisins á aðalmarkað á árinu. Þessi fyrirtæki eru öll mjög ólík innbyrðis og virðast eiga fátt sameiginlegt.

Árleg velta með bréf þeirra undanfarin fimm ár hefur verið mjög misjöfn, allt frá því að vera nokkrar milljónir og upp í nokkra milljarða. Þuríður Guðmundsdóttir, nemandi í viðskiptafræði við HÍ, kannaði þekkingu stjórnenda stærstu 300 fyrirtækja á Íslandi á First North-markaðnum í BS-verkefni sem hún vann á síðasta ári. Niðurstöður hennar urðu þær að þekking á þessum markaði er lítil.

First North er hliðarmarkaður sem starfræktur er af kauphöllunum innan NASDAQ OMX. Munurinn á aðalmarkaði og First North hvað varðar vernd fjárfesta er lítill. Öll helstu fjárfestaverndarsjónarmið sem eiga við á aðalmarkaði Kauphallarinnar eiga við um First North. Þar á meðal eru ákvæði verðbréfaviðskiptalaga um innherja- og markaðssvik. Á báðum mörkuðum er stjórnendum fyrirtækja skylt að birta tafarlaust verðmyndandi upplýsingar. Nokkur atriði gera það þó léttara fyrir fyrirtæki að vera skráð á First North. Til að mynda þurfa fyrirtæki á First North eingöngu að birta uppgjör tvisvar á ári í stað ársfjórðungslega.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .