Sparisjóðirnir á Íslandi, Toyota, Olís og Bónus verða bakhjarlar landssöfnunar Kiwanis-hreyfingarinnar til stuðnings geðsjúkum og aðstandendum þeirra sem fram fer dagana 4.-7. október. Kjörorð söfnunarinnar er Lykill að lífi og er hún haldin í tengslum við alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn 10. október, að því er fram kemur í fréttatilkynningunni.

Kiwanis-hreyfingin á Íslandi hefur allt frá árinu 1974 staðið fyrir landssöfnun þriðja hvert ár með sölu á K-lyklinum. Ágóði af landssöfnununum hefur runnið til fjölda verkefna til hjálpar geðsjúkum. Tilgangurinn er að vekja þjóðina til umhugsunar um málefni geðsjúkra og safna fé til þess að styðja við endurhæfingu þeirra. Að þessu sinni er sjónum sérstaklega beint að ungu fólki sem glímir við geðræn vandamál.

Ágóði landssöfnunarinnar að þessu sinni rennur til þriggja málefna; Geðhjálpar, BUGL og Forma. Gengið verður í hús um land allt, sölumenn verða við verslanamiðstöðvar og aðra fjölfarna staði, auk þess sem leitað er til fyrirtækja um stuðning. K-lykillinn verður ennfremur til sölu í öllum verslunum Bónuss og á þjónustustöðvum Olís. Þá verður hægt að leggja inn á reikning söfnunarinnar; 1100-26-55000, kennitala 640173-0179. Sparisjóðirnir á Íslandi eru fjárvörsluaðili söfnunarinnar og hægt verður að leggja málefninu lið með því að fara inn á heimabanka sparisjóðanna og millifæra.

Geðhjálp mun við ráðstöfun síns hluta söfnunarfjárins beina sjónum sérstaklega að ungu fólki á aldrinum 12-25 ára sem á við geðraskanir að etja. Ætlunin er að efla, styrkja og samþætta þau úrræði sem víða eru í boði en eru ekki sem skyldi sýnileg eða aðgengileg, jafnframt því sem leitast verður við að finna úrræði þar sem á skortir. Meðal annars verður komið á fót athvörfum fyrir þá einstaklinga sem einangrast hafa félagslega í samfélaginu vegna geðraskana og haldið áfram að byggja upp sjálfshjálparhópa um allt land.

BUGL hyggst nýta sinn hluta söfnunarfjárins til verkefna sem gera legudeildarsjúklingum kleift að fá þjálfun og afþreyingu utan deildarinnar. M.a. á að endurnýja útileikaðstöðu og auðvelda skjólstæðingum BUGL með ýmsu móti að fá holla hreyfingu og stunda uppbyggilega tómstundaiðju.

Forma mun nýta styrkinn til að efla ráðgjafastarfsemi sína um land allt svo átröskunarsjúklingar eigi auðveldara með að leita sér hjálpar. Einnig verður komið á fót skipulegri forvarnafræðslu í 8. bekk grunnskóla og 1. bekk framhaldsskóla til að sporna við fjölgun átröskunarsjúklinga.