„Þetta er reiðsarslag fyrir landvinnslu á Dalvík,“ segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja. Það var þungt í honum hljóðið þegar Viðskiptablaðið ræddi við hann í dag.

Frystihús Samherja á Dalvík
Frystihús Samherja á Dalvík
© Björgvin Guðmundsson (VB Mynd/BG)

Samherji greindi frá því fyrr í dag að stjórnendur fyrirtækis Samherja í Þýskalandi geti ekki átt í viðskiptum við íslensk fyrirtæki vegna lagalegrar óvissu í kjölfar húsleitar gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, sérstaks saksóknara og tollstjóra á tveimur starfsstöðvum Samherja í Reykjavík og Akureyri í síðustu viku vegna gruns um brot á gjaldeyrisviðskiptum. Þá stóð til að skip DFFU myndu á þessu ári landa um 3.500 tonnum af ferskum slægðum þorski á Íslandi á tímabilinu 15. apríl fram til 1. september en hætt hafi verið við það tímabundið.

Fjögurra mánaða vinna í frystihúsi

Gestur bendir á til samanburðar að 10 þúsund tonn hafi verið unnin í frystihúsi Samherja á Dalvík í fyrra. Þá jafngildi 3.500 tonn af slægðum þorski fjögurra mánaða vinnu fyrir 150 manns í frystihúsinu. Frystihús Samherja á Dalvík er eitt það stærsta á landinu. Þetta magn jafngildi ársvinnslu í meðal frystihúsi.

Gera má ráð fyrir því að aflaverðmæti af slægðum þorski skipta Deutsche Fishfang Union (DFFU), dótturfélags Samherja í Þýskalandi, sem til stóð að landa hér fram í september, nemi á bilinu 858 milljónum króna og allt að 880 milljóna. Allt fer það eftir við hvað er miðað. Hér er aðeins miðað við verðmæti aflans.

Meðalverð á slægðum þorski veiddum með botnvörpu seldur beint til fiskverkanda nam 245,23 krónum á kílóið í byrjun árs. Öllu hærra meðalverð fékkst á innanlandsmarkaði, 250,56 krónur fyrir kílóið.

Frystihús Samherja á Dalvík
Frystihús Samherja á Dalvík
© Björgvin Guðmundsson (VB Mynd/BG)
Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, segir það reiðarslag hætti dótturfélag Samherja í Þýskalandi að landa fiski á Dalvík.