BMW bílaframleiðandinn mun á næstunni segja upp nokkuð þúsund starfsmönnum vegna aukins kostnaðar og harðnandi samkeppni. Þetta er í fyrsta skiptið í áratug sem verksmiðjan segir upp fólki í stórum stíl. Þetta kemur fram í Financial Times.

Undanfarið hefur fyrirtækið gengið í gegnum erfiðleika sem má fyrst og fremst rekja til aukinnar samkeppni, meðal annars við Mercedes Benz og aukins rekstrarkostnaðar.

Der Spiegel sagði frá því á vef sínum að allt að átta þúsund manns yrði sagt upp störfum en talsmenn BMW hafa ekki viljað nefna neinar tölur og segjast munu ræða málið á nýju ári. Þeir tóku þó fram að reynt yrði að semja við verkalýðsfélög um sveigjanlegri vinnutíma og önnur kjör áður en hafist yrði handa við uppsagnir. Búist er við að meginþorri uppsagna muni eiga sér stað í Þýskalandi en framleiðsla í Bandaríkjunum gengur  vel og ekki er búist við uppsögnum þar.

Þessar uppsagnir eru þó ekki einsdæmi í Þýskalandi því Mercedes og Volkswagen hafa einnig sagt upp fjölda manns á undanförnum árum.

Sala á BMW bílum hefur þó gengið vel á þessu ári. Herald Tribune greinir frá því að salan hafi aukist um 8,3% miðað við árið í fyrra og fyrstu ellefu mánuði þessa árs hefur fyrirtækið næstum afhent jafn marga bíla og það gerði árið 2006 eða 1.347 milljón bíla.

Hins vegar hefur kostnaður aukist verulega og er þá bæði tekið tillit til efniskostnaðar og launakostnaðar. Í september síðastliðin kynnti forstjóri BMW, Norbert Reithofer, fimm ára arðsemisplan sem fór í sér lækkun á kostnaði um 8,6 milljarða evra. Hann minntist þó ekkert á uppsagnir í kynningu sinni en talsmenn verkalýðsfélags BMW, IG Metall, segja nýjust fréttir um fjöldauppsagnir þó ekki koma sér á óvart.