Minnst 1.400 Airbnb-íbúðir eru rangt skráðar og ættu að falla undir skilgreiningu atvinnuhúsnæðis að því er kemur fram í nýrri greiningu frá Hagdeild Íbúðalánasjóðs. Það þýðir að minnihluti íbúða sem leigðar eru út á Airbnb í lengur en 90 daga eða fyrir meira en 2 milljónir króna á þessu ári er með tilskilin leyfi og skráningu í samræmi við lög og reglur. Greiningin bendir til þess að verulega vanti upp á að opinberir aðilar hafi yfirsýn yfir Airbnb-gistingu hér á landi.

Í greiningunni kemur fram að í september höfðu um 2.600 íbúðir og 900 stök herbergi á landinu öllu verið í svo mikilli útleigu á Airbnb á árinu að um atvinnurekstur telst vera að ræða samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum. Það sjáist í gögnum fyrirtækisins Airdna sem byggð eru á upplýsingum sem birtast á Airbnb. Þegar skammtímaleiga íbúða fer yfir þessi mörk eru gerðar mun ríkari kröfur til gistirekandans, af hálfu hins opinbera, en þegar um tilfallandi heimagistingu er að ræða. Kröfur eru um að til staðar sé rekstrarleyfi fyrir gistingunni. Jafnframt þarf íbúðin að vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem atvinnuhúsnæði, en við það hækka fasteignagjöld af meðalíbúð í 101 Reykjavík um 600 þúsund krónur á ári.

© Skjáskot (Skjáskot)