Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að umfang meintra fjársvikamála gegn Magnúsi Ólafi Garðarssyni, stofnanda og fyrrverandi forstjóra United Silicon, hafi aukist því málunum sem séu undir hafi fjölgað að því er Vísir greinir frá.

Bæði þrotabú kísilversins sem og Arion banki og fimm lífeyrissjóðir höfðu óskað eftir rannsókn á grun um refsiverð brot af hálfu bæði Magnúsar og annarra stjórnenda. Kom það til viðbótar við kæru af hálfu stjórnar United Silicons vegna stórfelldra auðgunarbrota og skjalafals frá árinu 2014. Hefur honum verið stefnt fyrir útgáfu tilhæfulausra og falsaðra reikninga.

Síðan rannsókn hafi hafist séu fleiri tilvik að koma fram sem tilkynnt hafi verið til saksóknara, en í ágúst í fyrra kom fram að þrotabúið hafði gert kröfu í 570 þúsnd evrur sem talið er að Magnús hafi látið leggja inn á bankareikning í Danmörku. Það samsvarar í dag um 77 milljónum króna.

Farið hefur verið fram á að Magnús verði dæmdur til að greiða þrotabúi félagsins því sem nemur um 520 milljónum króna í bætur, eða svipaða upphæð og hann er talinn hafa dregið sér með fölsuðum rekningum gefnum út á ítalska fyrirtækið Tenova Pyromet.