Heildarfjöldi gistinátta ferðamanna á heilsárshótelum og Airbnb hér á landi nam 7,4 milljónum á síðasta ári. Um 43% af þeim voru í Airbnb en 57% á heilsárshótelum að því er segir í nýrri Hagsjá Landsbankans. Telur bankinn ljóst að Airbnb sé harður keppinautur við hefðbundna gististaði.

Bendir bankinn á að fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna í Airbnb hafi verið tæplega ferfalt meiri en á heilsárshótelum. Það sé kannski ekki furða enda megi gista tæplega þrjár nætur í Airbnb fyrir hverja eina nótt á hóteli eða gistiheimili.

Hlutföll gesta sem gistu í Airbnb og heilsárshótelum tóku miklum breytingum milli áranna 2016 og 2017 en hlutfall Airbnb var 29,6% árið 2016 og 70,3% á heilsárshótelum. Heildarfjöldi gistinátta í Airbnb jókst um 96% en heildarfjöldi gistinátta á hótelum jókst um 10,2%. Til samanburðar fjölgaði erlendum ferðamönnum um 24% milli ára.

Fjölgaði um 1,4 milljón gistinátta í Airbnb

Heildarfjöldi gistinátta erlendra ferðamanna jókst um 10,7% milli ára á heilsárshótelum. Sé gert ráð fyrir að hlutfall erlendra ferðamanna hafi verið það sama í Airbnb eins og á heilsárshótelum fjölgaði gistinóttum erlendra ferðamanna í Airbnb um 96,6% milli ára.

Alls fjölgaði gistinóttum erlendra ferðamanna um 1,4 milljón í Airbnb en talsvert minna, eða tæp 370 þúsund, á heilsárshótelum. Fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna í Airbnb var því tæplega ferfalt meiri en á heilsárshótelum.

Tekjurnar 9,3 milljarðar króna

Árið 2016 reiknar bankinn með að tekjur af Airbnb hér á landi hafi numið 9,3 milljörðum króna en þá nam fjöldi gistinátta 1,6 milljónum. Það þýðir að hver gistinótt í Airbnb hafi því kostað hvern ferðamann að jafnaði 5.718 krónur, sem er um 38% af kostnaði á hóteli eða gistiheimili.

Þar kemur einnig til mikil hækkun kostnaðar við gistingu á hótelum og gistiheimulum milli 2015 og 2017, eða 26% hækkun. Að meðtalinni gengisstyrkingu krónunnar hækkaði verðskráin um 58% á tímabilinu mælt í erlendri minnt.

Bendir bankinn jafnframt á að hlutfall þeirra sem gista í Airbnb sveiflist eftir nýtingu hótela, það er því betri herbergjanýting, því fleiri gista í Airbnb. Þetta mynstur styður í raun að hluti eftirspurnar eftir Airbnb sé að einhverju leyti einfaldlega drifinn af skorti á hótelgistirými og þá sérstaklega yfir sumarmánuðina segir í hagsjánni sem lesa má í heild hér .