Fjölmiðlanefnd hefur ekki heimild til gefa fjölmiðlum og fjölmiðlaveitum fyrirmæli um það hvernig haga skuli umfjöllun þeirra í aðdraganda kosninga. Nefndin skoðaði það um miðjan mánuðinn hvort ástæða væri til almennra aðgerða í aðdraganda kosninganna en tók þá ákvörðun að slíkt komi ekki til álita.

Þór Saari hefur fyrir hönd þinghóps Hreyfingarinnar send fjölmiðlanefnd bréf sem í segir að svo virðist sem ákvörðun Stöðvar 2 um að heimila eingöngu tveimur frambjóðendum til kjörs forseta Íslands þáttöku í kappræðum sé ekki í samræmi við lög um fjölmiðla og þá sérstaklega 26. grein þeirra. Hann beindi því til nefndarinnar að hún úrskurði um málið og grípi í taumana.

„Það er aðför að lýðræðislegri umræðu og algerlega óþolandi að annar af stærstu fjölmiðlum landsins kemst upp með að útiloka stærstan hluta frambjóðendanna frá þáttöku,“ skrifar Þór.

Fleiri hafa gagnrýnt að halli á hlut annarra frambjóðenda en Ólafs Ragnars Grímssonar og Þóru Arnórsdóttur í umfjöllun fjölmiðla í tengslum við kosningarnar. Á móti hafa stuðningsmenn Ólafs gagnrýnt að hann njóti ekki sannmælis í umfjöllun fjölmiðla um hann.

Nefndin áréttar í tilkynningu að hvað sem úrræðum fjölmiðlanefndar líður, standi 26. gr. laga um fjölmiðla eftir sem stefnuyfirlýsing, sem fjölmiðlaveitum ber að hafa í heiðri. Hvetur fjölmiðlanefnd fjölmiðlaveitur til þess að hafa 26. gr. og þær hugmyndir sem að baki henni búa í huga á næstu vikum og gæta þess að sjónarmið allra forsetaframbjóðenda fái að koma fram.