Viggó Jónsson, annar stofnenda auglýsingastofunnar Jónsson & Le´macks, segir hið klassíska rekstrarmódel auglýsingastofa vera að syngja sitt síðasta um þessar mundir. Hann gagnrýnir þróun fjölmiðla og spáir því að fólk gefist fljótlega upp á samfélagsmiðlum.

Hvernig er rekstrarumhverfi íslenskra auglýsingastofa í dag?

„Það er mjög snúið en gamla rekstrarmódelið er að syngja sitt síðasta. Gamla tekjumódelið var í raun mjög einfalt þar sem auglýsingastofur lifðu lengi vel á birtingar- og framleiðsluþóknunum en það er langt síðan það byrjaði að þrengja að því fyrirkomulagi. Þetta er ekki bara að eiga sér stað hér á landi, þetta er alþjóðleg þróun sem hefur staðið í áratugi. Menn eru að fikta sig áfram og hér heima eru fyrirtækin að verða ólíkari finnst mér.

Málið er að skilin milli auglýsinga, vefvinnu og almannatengsla eru smám saman að leysast upp. Þetta er grundvallarbreyting sem hefur verið í hægri þróun síðan á tíunda áratugnum. Vefurinn er t.d. orðinn gríðarlega stór hluti af því sem við gerum, það er fátt sem er ekki vef-miðað. Svo reyndist internetið vera vídeómiðill eftir allt saman þannig að kvikmyndaframleiðsla er hluti af þessu flæði líka. Það hafa verið gerðar tilraunir með mjög stórar einingar sem eru allt í senn auglýsingastofur, almannatengslafyrirtæki og vefstofur. Þær hafa hins vegar ekki gengið upp þó að margt hafi verið efnilegt og vel gert í þessu. Reksturinn varð mjög þunglamalegur enda fasti kostnaðurinn algerlega út úr kortinu.

Auglýsingabransinn aðlagast bara sínu umhverfi og þar hafa blessaðir fjölmiðlarnir átt hressari daga. Það hvað er til sölu í fjölmiðlum hefur breyst mikið – sumir fjölmiðlar eru eiginlega að öllu leyti til sölu og fátt þar sem er ekki keypt. Á sama tíma hefur fjölmiðlaneysla fólks breyst í grundvallaratriðum. Árið 1998 voru tvær sjónvarpsstöðvar og tvö dagblöð. Þetta var nú ekki mjög flókið. Þú gast gert auglýsingaherferð, byrjað á fimmtudegi og séð til þess að hver einasti Íslendingur væri búinn að sjá auglýsingaherferðina á mánudegi og stjórnað því í hvaða röð og svo framvegis.

Í dag getur þú hins vegar eytt tugum milljóna í auglýsingaherferð og ég mun aldrei sjá hana þar sem ég horfi ekki á sjónvarpið eða les blöðin.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.