*

föstudagur, 26. apríl 2019
Innlent 25. nóvember 2017 13:43

Fjölmiðlarýni: Seðlabankalekinn

Viðbrögð sumra fjölmiðla við birtingu af endurriti á símtali Geirs og Davíðs komu töluvert á óvart.

Andrés Magnússon
Birgir Ísl. Gunnarsson

Síðastliðinn laugardag birti Morgunblaðið endurrit af sögulegu símtali Geirs H. Haarde, þáv. forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra, hinn 6. október 2008. Þar ræddu þeir um fyrirhugað 500 milljóna evra neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings. Fram kemur á upptökunni að Davíð gerði ekki ráð fyrir að Kaupþing gæti endurgreitt lánið og því þyrfti mjög örugg veð fyrir láninu, sem Geir var sammála.

Um þetta símtal hefur margt verið skrafað í áranna rás, en það hefur ekki fengist birt, aðallega vegna andstöðu Geirs, að manni hefur skilist. Hann telur að með því gæti skapast vont fordæmi og vissulega hníga ýmis rök til þess: Næst þegar upp kemur váleg staða, sem æðstu ráðamenn þurfa að ráða fram úr skjótt og örugglega, munu þeir þá hafa hugann við lausn málsins eða hvernig orð þeirra muni líta út í blöðunum einhverjum árum síðar?

Það er alveg sjónarmið. Fyrir Seðlabankann altso eða önnur stjórnvöld. Fjölmiðlar og blaðamenn kunna að hafa önnur sjónarmið, en þar er meginreglan sú að það þurfi alveg sérstök rök til þess að koma í veg fyrir að fjölmiðlar segi fréttir, sem erindi eiga við almenning. Þannig að Seðlabankinn getur haft rétt fyrir sér um að ekki eigi að birta símtalið um leið og Morgunblaðið hefur rétt fyrir sér um að það eigi að birta það. Þar vegast á ólíkir hagsmunir og ólíkt mat.

***

Nú er það raunar svo, að þó að samtalið hafi ekki verið birt áður, þá hefur það verið kannað af ýmsum aðilum áður, bæði í bankanum, af Rannsóknarnefnd Alþingis og þingnefnd. Um það átti að ríkja trúnaður, en fjölmiðlarýnir er varla að ljóstra neinu upp þó hann greini frá því að mörg ár eru síðan það spurðist út að í þessu samtali væru engin stórtíðindi, ekkert sem skaraðist á við það sem áður hafði komið fram um þessi mál.

Hins vegar hefur þessi leynd öll örugglega kynt undir áhuga margra á efni símtalsins, ýtt undir ýmsar glæsilegar samsæriskenningar, og örugglega vakið fleiri spurningar en birting þess. Þar fyrir utan hafa lengið gengið ýmsar hviksögur um að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem þá var ráðherra og átti verulegra hagsmuna að gæta í Kaupþingi, hafi á einhvern hátt átt aðild að símtalinu. Ekkert í endurritinu styður það á nokkurn hátt. Þannig að birting endurrits símtalsins reyndist óneitanlega nokkurt spennufall og meiri tíðindi í sjálfri birtingunni en efni hennar. Það gengur svona.

***

Þess vegna komu viðbrögð margra þeirra, sem hæst hafa kallað eftir birtingu símtalsins á umliðnum árum, töluvert á óvart. Loks þegar það var birt, þá umhverfðust þeir yfir því að það hefði verið birt!

Það er út af fyrir sig skiljanlegt að pólitískir andstæðingar Davíðs séu jafntrylltir út í hann í dag og aðra daga, en viðbrögð sumra fjölmiðla voru þeim mun einkennilegri.

Fjölmiðlar hafa árum saman freistað þess að fá símtalið í hendur, en til þessa án árangurs, því Seðlabankinn hefur ávallt hafnað beiðnum þar um og bæði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál Umboðsmaður Alþingis úrskurðað á sama veg. Nýverið stefndi vefmiðillinn Kjarninn bankanum fyrir dóm í því skyni að fá upptökuna afhenta.

En loks þegar fjölmiðill birtir árans símtalið, þá er það ekki nógu gott. Eftir því sem næst verður komist stafar sú bræði af því að það hafi verið Morgunblaðið, þar sem Davíð Oddsson er ritstjóri, sem hafi birt símtalið.

Margir voru ekki seinir á sér að draga þá ályktun að Davíð hafi staðið að baki birtingunni, hann hafi haft upptöku eða endurrit með sér burt úr Seðlabankanum og kosið að birta loks nú, vafalaust af hinum verstu hvötum, þó ekki sé nú ávinningurinn ljós.

Stefán E. Stefánsson, blaðamaður, sem skrifaði þessa frétt, hefur raunar upplýst að hún sé ekki frá Davíð komin. Sem fyrr segir hefur nokkur fjöldi manna séð þessi gögn á umliðnum árum, en svo er ekki útilokað að málshöfðun Kjarnans hafi orðið til þess að gögnin hafi þurft að fara víðar en áður.

Það dró samt ekki máttinn úr mönnum. Stígur Helgason og Sigrún Davíðsdóttir á Ríkisútvarpinu sendu þannig furðulegan spurningalista til Seðlabankans um málið:

  1. Sótti blaðið um leyfi til birtingar?
  2. Ef ekki mun þá bankinn grípa til aðgerða?
  3. Ef bankinn grípur ekki til aðgerða, hvers vegna ekki?
  4. Er þetta afrit samhljóða upptökunni sem SÍ hefur undir höndum?

Þarna er Ríkisútvarpið í fúlustu alvöru með það sem forsendu spurningar til stjórnvalds í landinu, að fjölmiðlar verði að biðja kansellíið leyfis áður en þeir megi segja fréttir innan úr því! Er ekki allt í lagi þarna í Efstaleitinu?

Þriðja spurningin er engu skárri, beinlínis einkennileg, þar sem verið er að gera því skóna að Seðlabankinn sé á einhvern hátt að vanrækja skyldur sínar ef hann grípi ekki til aðgerða, gegn fjölmiðlinum væntanlega.

***

Þetta er samt eiginlega ekkert hjá leiðaranum, sem Magnús Guðmundsson skrifaði í Fréttablaðið um málið. Hann taldi það fullkomlega handan hins boðlega að Morgunblaðið hafi birt endurritið, meðal annars vegna þess hvað vefmiðillinn Kjarninn hafi sóst eftir fréttinni, „jafnvel með því að stefna Seðlabankanum með tilheyrandi kostnaði,“ eins og Magnús segir og bætir við: „Birting samtalsins nú veldur Kjarnanum fjárhagstjóni...“

Þetta er mögulega kjánalegasta setning, sem birst hefur í forystugrein á Íslandi og er þá langt til jafnað. — Það að einn fjölmiðill óski eftir pappír frá hinu opinbera útilokar ekki aðra fjölmiðla fyrir að afla sér fréttarinnar og segja á eigin forsendum. Fjölmiðlar geta ekki bent á ósagðar fréttir og sagt „pant!“

***

Það er ekki hægt að segja að gjaldþrot og lokun ÍNN hafi komið fyllilega á óvart. Það er hins vegar ávallt verra þegar fjölbreytni minnkar, á hvaða markaði sem er. Tala nú ekki um stöð eins og ÍNN, sem gaf heiminum Eldhús meistaranna og fyndnasta viðtal fjölmiðlasögunnar, sem Maggi Texas tók við gúmmítréð, sællar minningar. Getur Hringbraut ekki ráðið hann?

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim