Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ)  hefur óskað eftir formlegum viðræðum við borgaryfirvöld um framtíð Laugardalsvallar. Morgunblaðið greinir frá því í dag að KSÍ hafi áhuga á að kaupa völlinn af borginni og hefja uppbyggingu án aðkomu borgarinnar.

Þá greinir Morgunblaðið frá því að forhagkvæmnisathugun hafi leitt í ljós að grundvöllur sé mögulega fyrir því að byggja fjölnota leikvang í Laugardal. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir í viðtali við blaðið að næsta skref sé að fara í formlega hagkvæmniskönnun. Erlendir aðilar með reynslu af uppbyggingu og rekstri íþróttamannvirkja verði fengnir til að ráðgjafar.

Laugardalsvöllur hefur verið nokkuð umdeildur þrátt fyrir að farið hafi verið í umfangsmiklar umbætur á vellinum fyrir nokkrum árum. Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari sagði í viðtali í tímariti Viðskiptablaðsins um síðustu áramót að hann skammaðist sín fyrir völlinn og þá sérstaklega aðstöðuna.