Fjölskylda Dorritar Moussaieff, forsetafrúr, átti félag sem skráð var á Bresku Jómfrúareyjum í sex ár, frá 1999 til 2005. Þetta kemur fram í Panama-skjölunum svokölluðu, en Kjarninn greindi frá þessu í dag. Ólafur hafði þá áður sagt í viðtali við CNN að engar tengingar hans eða Dorritar við aflandsfélög ættu eftir að koma í ljós.

Fyrirtækið sem um ræðir heitir Lasca Finance Limited og var að hluta til í eigu Moussaieff Jewellers Ltd., sem er fyrirtæki í eigu Moussaieff-fjölskyldunnar. Faðir Dorritar, Schlomo Moussaieff, lést um mitt síðasta ár. Þá var móðir Dorritar, Alisa Moussaieff, skráð eigandi Moussaieff Jewellers Ltd.

Lasca Finance er skráð, eins og fyrr segir, á Bresku Jómfrúareyjum. Það var í umsjón Mossack Fonseca, lögfræðiskrifstofunnar sem vakið hefur mikla athygli síðustu misserin. Samkvæmt skráningarskjölum um félagið átti það að fá heilar sjö milljónir punda greiddar í vaxtagreiðslur á þeim árum sem það var starfandi, en sú upphæð nemur tæplega 1,3 milljarði króna á gengi dagsins.

Embætti forsetans svaraði fyrirspurn Kjarnans á þann hátt að hvorki Ólafur né Dorrit hafi vitað nokkuð né heyrt af félaginu áður. Á blaðamannafundi í síðustu viku tilkynnti Ólafur um framboð sitt til embættis Forseta í sjötta skiptið. Þegar hefur hann gegnt því í tuttugu ár.