Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings og fjölskylda hans hafa frá árinu 2009 byggt upp fyrirtækið Gistiver sem tengist nú rekstri sjö gististaða víðsvegar um landið. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Þrír þessara gististaða eru í Stykkishólmi en hinir fjórir eru á Nesjavöllum, Búðum, í Keflavík og Reykjavík. Líklegt er að félagið tengist líka hosteli á Akureyri. Samhliða þessari uppbyggingu hefur Gistiver opnað þvottahúsið Sængurver í Stykkishólmi.

Eiginkona Hreiðars Más, Anna Lísa Sigurjónsdóttir, er framkvæmdastjóri Gistivers og jafnframt eigandi félagsins. Þau eiga bæði lögheimili í Lúxemborg. Stærsta hótelið í keðju þeirra hjóna er ION Luxury Adventure Hotel á Nesjavöllum. Þann rekstur eiga þau ásamt viðskiptafélögum sínum, Halldóri Hafsteinssyni og Sigurlaugu Hafsteinsdóttur.