Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um móttöku 13 sýrlenskra flóttamanna í neyð og að undirbúningur vegna móttöku þeirra hefjist þegar í stað. Þetta segir í tilkynnungu á vef velferðarráðuneytis . Ákvörðunin er til samræmis við tillögu flóttamannanefndar og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Þann 23. maí síðastliðinn var tekin ákvörðun í ríkisstjórn að bregðast við ákalli Flóttamannastofnunar SÞ til aðildarríkja um að taka á móti flóttafólki frá Sýrlandi sem hefur leitað til nærliggjandi ríkja.

"Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru í Sýrlandi og nágrannaríkjum vilja íslensk stjórnvöld leggja sitt að mörkum og taka til viðbótar á móti hópi fólks sem er á flótta undan þeim mikla mannúðarvanda sem að steðjar. Með því verður Ísland hvatning annarra aðildarríkja sem eru að íhuga að verða við ákallinu," sagði í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti vegna ákvörðunarinnar frá því í maí.

Flóttafólkið sem hingað kemur mun eiga við heilbrigðisvanda að stríða og því brýn þörf að veita því heilbrigðisþjónustu, sem er illfáanleg í heimalandinu um þessar mundir.

Fólkið dvelur nú í Tyrklandi en um er að ræða fjórar fjölskyldur og þar af eru sex börn. Flóttamannanefnd hefur fengið það hlutverk að undirbúa komu fólksins og leitar nú til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Rauða krossins um aðstoð.