Bæjaryfirvöld í Stykkishólmi skoða nú við hvort þeirra fyrirtækja sem hafa lýst yfir áhuga á að hefja þörungavinnslu í bænum verði gengið til frekari viðræðna. Um er að ræða annars vegar kanadíska félagið Acadian Seaplants og hins vegar Íslenska kalkþörungafélagið að því er Morgunblaðið greinir frá.

Ef talið er með áhugi síðarnefnda félagsins til uppbyggingar í Súðavík og endurnýjunar verksmiðju sem vinnur kalkþörunga í Bíldudal gæti heildarfjárfestingin í þara- og kalkþörungavinnslu numið fjórum milljörðum króna ef tekið saman.

Í verksmiðju og hráefnaöflun úr þara gætu orðið til 20 störf í Stykkishólmi að sögn Halldórs Halldórssonar forstjóra Íslenska kalkþörungafélagsins. Óbein störf til viðbótar gætu orðið 12 talsins. Í Stykkishólmi er þó ekki verið að ræða um framleiðslu úr botnseti kalkþörunga líkt og á Bíldudal og Súðavík, heldur beinan slátt á þangi og vinnsu úr því.

Starfsemin verði þó byggð upp í þrepum svo til að byrja með verði færri starfsmenn. Fyrsti hluti áætlana fyrirtækisins í bænum gerir ráð fyrir 2.200 fermetra byggingu sem yrði hægt að stækka í 4.400 fermetra.

„Það er mat Íslenska kalkþörungafélagins að staðsetning í Stykkishólmi sé heppileg með tilliti til þess að þar er starfsfólk líklegt til að vilja setjast að til langframa auk þess sem bæjarfélagið getur verið aðlaðandi fyrir menntafólk, sem þörf er á til rannsókna á lífríki Breiðafjarðar og afurðum verksmiðjunnar,“ segir Halldór.

Til viðbótar er vinna við aðal- og deiliskipulag í gangi í Súðavík vegna áforma félagsins um að reisa 4.000 fermetra kalkþörungaverksmiðju svipaða og félagið rekur á Bíldudal, jafnvel umfangsmeiri.

Töluvert er talið að sé af kalkþörungaseti á Vestfjörðum, 100 milljónir rúmmetra á botni Ísafjarðardjúps og Jökulfjarðar og 21 milljón í Arnarfirði. Framleiðslugeta verksmiðjunnar sem þurrkar setið í mjöl yrði 120 þúsund tonn á ári og skapa 42 bein og óbein störf.

Loks stendur yfir endurnýjun á verksmiðju félagsins í Bíldudal sem 14-16 iðnaðarmenn hafa sinnt. Félagið er í eigu írsku félaganna Celtic Sea Minerals og Marigot en þau reka m.a. verksmiðju sem fullvinnur þang í Stornoway í Skotlandi. Segir Halldór að svipuð vinnsla muni fara fram í Stykkishólmi og þar, en hún snýst um að vinna safa úr þanginu sem notaður er í áburð og á ávaxta- og grænmetisökrum.